EM-leikir leiknir án áhorfenda?

Stade de France.
Stade de France. AFP

Skipuleggjendur lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fer fram í Frakklandi í sumar eru við öllu búnir og meðal annars því að þurfa að spila leiki án áhorfenda, fresta þeim eða flytja á aðra velli.

Eftir hryðjuverkin í París 13. nóvember eru miklar öryggisráðstafanir í undirbúningi fyrir sumarið. Það kvöld var m.a. reynt að komast inná Stade de France á meðan leikur Frakka og Þjóðverja stóð þar yfir.

„Við munum grípa til þess að spila leiki án áhorfenda ef einhverjar kringumstæður kalla á slíkar aðgerðir. Það er líka mögulegt að fresta leikjum, spila þá síðar, eða flytja þá á aðra velli. En eins og staðan í dag er ekkert sem bendir til slíks ástands," sagði Martin Kallen, formaður framkvæmdastjórnar EM, við BBC í dag.

Fyrsti leikur EM fer fram á Stade de France í útjaðri Parísar 10. júní en þá eigast við Frakkland og Rúmenía. Ísland mun spila á þeim velli gegn Austurríki í lokaumferð riðlakeppninnar 22. júní. Þar fer úrslitaleikurinn fram 10. júlí.

Á morgun eru 100 dagar þar til Evrópukeppnin hefst og 104 dagar í að Ísland mætir Portúgal í fyrstu umferðinni í Saint-Étienne.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert