Vítaklúðrið blés lífi í okkur

Diego Simeone fagnar afreki kvöldsins.
Diego Simeone fagnar afreki kvöldsins. AFP

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético Madrid, var auðvitað í skýjunum eftir að hafa stýrt liðinu í annað sinn á þremur árum, með því að slá út Bayern München í kvöld.

Atlético tapaði 2:1 fyrir Bayern í München í kvöld en vann fyrri leikinn 1:0 og fór áfram í úrslitaleikinn á reglunni um útivallamörk. Mikið gekk á í leiknum og klúðraði Thomas Müller vítaspyrnu fyrir Bayern, í stöðunni 1:0, sem Simeone segir hafa skipt miklu máli.

„Það eru miklar tilfinningar í gangi. Þetta var mjög góður fyrri hálfleikur hjá Bayern, enda er þetta frábært lið. En vítið sem þeir klúðruðu blés í okkur lífi,“ sagði Simeone.

„Við þurftum að breyta svolítið til frá fyrri leiknum og sýndum styrkleika okkar sem lið. Vítið sem Torres klúðraði [rétt fyrir leikslok] gerði okkur erfitt fyrir en í lokin var þetta bara eins og spennumynd, með fimm mínútum af uppbótartíma,“ sagði Simeone við BT.

„Ég er stoltur af því sem þetta félag hefur afrekað. Við erum að vinna bestu lið heims. Á þessum 180 mínútum sýndum við afrakstur vinnu síðustu þriggja ára. Vonandi mun þetta líka hjálpa okkur í úrslitaleiknum. Það skiptir ekki máli hverjum við mætum,“ sagði Simeone, en Real Madrid og Manchester City mætast annað kvöld í hinni undanúrslitarimmunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert