Torres leið ekki vel hjá Chelsea

Fernando Torres.
Fernando Torres. AFP

Spænski sóknarmaðurinn Fernando Torres segir að sér hafi ekki liðið vel hjá Chelsea. Hann var hluti af liði Chelsea sem vann Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu fyrir fjórum árum en leið samt ekki vel hjá Lundúnaliðinu.

Torres getur bætt öðrum Meistaradeildartitli í safnið á laugardag þegar lið hans, Atlético Madrid, mætir Real Madrid í úrslitaleik. „Ég sigraði í keppninni með Chelsea en var ekki á góðum stað þá. Mér fannst ekki komið vel fram við mig og ég var týndur,“ sagði Torres.

„Ég vil ekki tala um þessi augnablik. Mér gengur vel núna, er kominn heim og er fullur sjálfstrausts. Þá er ekki rétti tíminn til að rifja upp erfiðar stundir,“ sagði Torres enn fremur og bætti við að hann væri himinlifandi að vera kominn aftur til Atlético, þar sem hann hóf ferilinn:

„Ég hef aldrei verið glaðari. Það er frábært að vera kominn aftur hingað og vonandi verð ég hér áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert