Kolo Toure á leið til Celtic

Kolo Toure hress og kátur í búningi Liverpool.
Kolo Toure hress og kátur í búningi Liverpool. AFP

Varnarmaðurinn Kolo Toure er á leið til Celtic, en hann hefur verið án félags síðan samningur hans við Liverpool rann út í vor. Toure er staddur í Glasgow þar sem hann undirgengst læknisskoðun og ef hún gengur að óskum verður hann orðinn leikmaður Celtic seinna í dag. 

Toure endurnýjar þá kynni sín við Brendan Rodgers, núverandi knattspyrnustjóra Celtic, sem fékk Toure til liðs við sig hjá Liverpool árið 2013. Toure ætti að vera klár í slaginn með Celtic þegar liðið mætir Astana í fyrri leik liðanna í þriðju umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn.

Auk þess að leika með Liverpool hefur Toure leikið með ASEC Mimosas, Arsenal og Manchester City á ferli sínum. Þá hefur Toure, sem er 35 ára gamall, leikið 118 landsleiki fyrir Fílabeinsströndina og skorað sjö mörk.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert