KSÍ hafnaði því að vera í FIFA 17

Aron Einar Gunnarsson og félagar eru ekki í FIFA 17
Aron Einar Gunnarsson og félagar eru ekki í FIFA 17 Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnusamband KSÍ hafnaði tilboði bandaríska tölvuleikjaframleiðandans EA Sports um að hafa karlalandsliðið í nýjustu útgáfu FIFA tölvuleiksins. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, taldi tilboð þeirra of lágt en þetta sagði hann í samtali við Nútímann.

Frétt mbl.is: Ísland ekki með í FIFA-tölvuleiknum

Það vakti mikla athygli á dögunum er það varð ljóst að íslenska karlalandsliðið var ekki á lista yfir þau lið sem eru í FIFA 17 tölvuleiknum sem kemur eftir rúmlega viku. Íslenska liðið hefur aðeins einu sinni verið í leiknum en það var í FIFA 97, þar sem hægt var að spila innandyra.

Karlalandsliðið komst á Evrópumótið í Frakklandi í sumar eftir frábæran árangur í undankeppninni en liðið gerði gott betur en að komast á mótið. Liðið vann England í 16-liða úrslitum en þurfti að lúta í gras fyrir gestgjöfunum.

Aron Einar Gunnarsson og félagar gerðu víkingaklappið frægt á Evrópumótinu en það verður í tölvuleiknum. Það kom því heldur betur á óvart þegar listinn var birtur að Ísland er ekki á meðal liða í leiknum, hvað þá kvennalandsliðið sem leikur á sínu þriðja Evrópumóti í röð á næsta ári.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir í samtali við Nútímann að EA Sports hafi haft samband við KSÍ en að tilboð þeirra hafi verið of lágt. Samningar náðust ekki í þetta skiptið og ljóst að spilarar verða svekktir með niðurstöðuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert