Ekki vegna peninga heldur vegna fótboltans

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Gianni Infantino, forseti FIFA, segir ákvörðun um það að fjölga liðum í lokakeppni HM karla í knattspyrnu úr 32 í 48 hafa verið tekna með hagsmuni íþróttarinnar að leiðarljósi, en ekki vegna peninga.

Frétt mbl.is: FIFA samþykkir fjölgun liða á HM

Framkvæmdastjórn FIFA ákvað í dag að frá og með HM 2026 yrðu 48 lið í lokakeppni HM. Samtök sem kalla sig New FIFA Now segja ákvörðunina tekna vegna græðgi í peninga og völd og Samband evrópskra knattspyrnufélaga (ECA) hefur einnig lýst yfir óánægju sinni. Í yfirlýsingu ECA segir meðal annars að ákvörðunin sé ekki tekin af íþróttalegum ástæðum. Þessu neitar Infantino:

„Þvert á móti. Ákvörðunin er fyrir fótboltann. Hvert mótafyrirkomulag hefur sína kosti hvað fjárhagsleg sjónarmið varðar. Við vorum í góðri stöðu til að taka ákvörðun út frá því hvað skipti máli fyrir íþróttina,“ sagði Infantino við BBC.

FIFA hafði skoðað hver fjárhagslegur ávinningur yrði af því að stækka lokamótið og var niðurstaðan sú að það myndi skila tekjuaukningu upp á 640 milljónir Bandaríkjadala, eða um 20% aukningu.

Infantino er ekki sammála þeim sem segja að gæði HM muni rýrna með fjölgun liða:

„Kosta Ríka sá við Englandi og Ítalíu á síðasta HM, var með gott og traust lið, og það eru mörg fleiri lið sem myndu standa sig vel á HM,“ sagði Infantino.

„Ég held að gæði mótsins gætu orðið meiri, vegna þess að fleiri þjóðir munu sjá möguleika á að komast á mótið og efla frekar afreksstarf sitt sem og grasrótarstarfið,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert