Real Madrid setti met á síðustu stundu

Sevilla reynir að halda fljótt áfram leik eftir mark í …
Sevilla reynir að halda fljótt áfram leik eftir mark í kvöld en það dugði ekki til. AFP

Evrópumeistarar Real Madrid eru komnir áfram í átta liða úrslit spænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir jafntefli við Sevilla, 3:3, í síðari viðureign liðanna.

Real vann fyrri leikinn 3:0 í síðustu viku, en meðal annars fékk Cristiano Ronaldo hvíld í leiknum í kvöld. Sevilla komst í 3:1 með mörkum Danilo, Stevan Jovetic og Iborra, en Marco Asensio hafði jafnað fyrir Real í 1:1.

Sergio Ramos gerði svo út um leikinn fyrir Real úr vítaspyrnu sjö mínútum fyrir leikslok áður en Karim Benzema gulltryggði farseðilinn í uppbótartíma og fara Madrídingar því áfram samanlagt 6:3.

Mark Benzema kom á þriðju mínútu uppbótartíma og gerði það að verkum að Real Madrid setti nýtt met á Spáni. Liðið hefur ekki tapað leik í 40 leikjum í röð.

Ásamt Real Madrid eru Barcelona, Real Sociedad, Alcorcón, Deportivo Alavés, Atlético Madrid, Eibar og Celta Vigo komin í átta liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert