Finna ekki Kolbein

Kolbeinn Sigþórsson á fullri ferð með landsliðinu á EM.
Kolbeinn Sigþórsson á fullri ferð með landsliðinu á EM. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Franska íþróttadagblaðið L'Equipe segir í dag að forráðamenn Nantes viti ekkert um íslenska knattspyrnumanninn Kolbein Sigþórsson sem hafi ekki komið til félagsins eftir að hann var leystur undan lánssamningi við Galatasaray fyrir áramótin.

„Kolbeinn Sigþórsson finnst ekki“ segir í fyrirsögn blaðsins þar sem segir að sóknarmaðurinn sé heima á Íslandi en þar hafi Nantes ekki náð sambandi við hann, og heldur ekki landar hans.

Haft er eftir Waldemar Kita, stjórnarformanni Nantes, að Kolbeinn hafi verið beðinn um að koma til Nantes til að gangast undir læknisskoðun. Hann geri hinsvegar alltaf það sem honum sýnist og ekkert sé hægt að gera því leikmaðurinn hafi ekki einu sinni óskað eftir laununum sínum.

Kolbeinn var lánaður frá Nantes til Galatasaray í lok ágúst en þurfti nokkrum dögum síðar að gangast undir aðgerð á hné og náði ekkert að spila með tyrkneska liðinu. Hann var þó byrjaður að æfa þar skömmu áður en lánssamningnum var rift.

Kolbeinn spilaði tvo leiki með Nantes í upphafi tímabilsins, áður en hann fór til Tyrklands, og það eru einu leikir hans síðan Evrópukeppninni lauk í Frakklandi í sumar en þar skoraði hann í leikjum Íslands gegn Englandi og Frakklandi í 16-liða og 8-liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert