Tek áhættu en er mjög bjartsýnn

Sverrir Ingi Ingason fyrir fyrstu æfinguna með Granada í gær.
Sverrir Ingi Ingason fyrir fyrstu æfinguna með Granada í gær. granadacf.es

Sverrir Ingi Ingason landsliðsmaður í knattspyrnu segir að það sé stórt og mikilvægt skref fyrir sig að ganga til liðs við spænska félagið Granada og hann sé hvergi smeykur við að semja við félag sem er í harðri fallbaráttu á Spáni.

Granada hefur gengið frá kaupum á honum frá Lokeren í Belgíu og samið við hann til þriggja og hálfs árs, eða til vorsins 2020, en hann var formlega kynntur til sögunnar hjá spænska félaginu í morgun.

„Það er allt mjög flott hjá Granada, allt öðruvísi en ég bjóst við og mun stærra á öllum sviðum en í Belgíu. Ég vissi að þetta væri frekar lítið félag sem væri búið að halda sér í fimm ár í efstu deild og væri í vandræðum núna en það virðist vera mikill metnaður fyrir því að bæta úr þessu og búa til samkeppnishæft lið með styrkingum í þessum mánuði svo það geti haldið sér í deildinni," sagði Sverrir Ingi við mbl.is.

Sverrir Ingi Ingason og Eliaquim Mangala í leik Frakklands og …
Sverrir Ingi Ingason og Eliaquim Mangala í leik Frakklands og Íslands í átta liða úrslitum EM í Frakklandi síðasta sumar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ég er að sjálfsögðu að taka ákveðna áhættu en eftir viðræður við þjálfara og stjórnarmenn finn ég að þeir ætla sér að styrkja liðið svo mikið að það eigi alla möguleika á að halda sér í deildinni í ár. Ef allt fer á versta veg og liðið fer niður um deild, þá verður allt lagt undir til að komast beint upp aftur," sagði Sverrir en Granada hefur aðeins unnið einn af fyrstu 18 leikjum sínum í spænsku 1. deildinni og er sex stigum á eftir Valencia sem er næsta lið fyrir ofan fallsætin þrjú.

Ætlaði ekki að sjá eftir neinu seinna meir

Þetta er bæði spennandi og krefjandi verkefni og tækifæri sem ég ákvað að ekki væri hægt að hafna. Ég ætlaði mér ekki að sjá eftir því seinna meir, þegar ferlinum væri lokið, að hafa ekki gripið tækifærið sem bauðst til að spila í einni af sterkustu deildum í heimi. Þessvegna tók ég þá ákvörðun að kýla á þetta og ég er mjög bjartsýnn á að liðið geti haldið sér í deildinni," sagði Sverrir.

Hér á Spáni hafa nokkrir Íslendingar spilað, sumir náðu ekki að festa sig í sessi en Eiður Smári gerði frábæra hluti með Barcelona. Það er mikil áskorun að koma í þessa deild, spila gegn öflugum leikmönnum og sögufrægum félögum, og kynnast um leið nýju tungumáli og öðruvísi menningu en ég hef til þessa upplifað á Íslandi, í Noregi og Belgíu," sagði Sverrir, sem er 23 ára gamall og lék áður með Breiðabliki, Viking Stavanger í Noregi og með Lokeren í Belgíu frá því í janúar 2015.

Sverrir Ingi Ingason á æfingu hjá Lokeren í haust, ásamt …
Sverrir Ingi Ingason á æfingu hjá Lokeren í haust, ásamt Arnari Þór Viðarssyni aðstoðarþjálfara. mbl.is/Kristján Bernburg

Hann sagði að Granada væri komið með nýja eigendur sem ætluðu sér að breyta mörgu. Fyrri eigendur voru þeir sömu og áttu Udinese og Watford, og voru stöðugt að miðla leikmönnum á milli félaganna. Nýju eigendurnir hafa komið með peninga í félagið og ætla núna að byggja á því að eignast eigin leikmenn í staðinn fyrir það hringsól sem hefur verið í gangi. Hérna er spunkunýtt og flott æfingasvæði, félagið sjálft er með mikið starfslið og öfuga markaðsdeild, og það kom mér á óvart hversu stórt þetta er allt saman," sagði Sverrir Ingi.

Bíð spenntur eftir því að byrja

Hans fyrsti leikur gæti orðið strax á laugardaginn þegar Granada leikur gegn Espanyol á útivelli í Barcelona. „Já, það á að vera alveg öruggt að leikheimildin verði þá orðin klár. Mér er sagt að hún eigi að ganga í gegn á eftir eða í allra síðasta lagi á morgun. Liðið æfir hérna í Granada á morgun, föstudag, og flýgur síðan til Barcelona. Ég bíð spenntur eftir því að geta byrjað að spila með liðinu," sagði Sverrir Ingi.

Miðvörðurinn öflugi úr Kópavogi hefur tekið skrefin jafnt og þétt á ferlinum síðan hann kom 18 ára gamall inn í byrjunarlið Breiðabliks vorið 2012. Frá þeim tíma hefur hann átt fast sæti í sínum þremur liðum, Breiðabliki, Viking og Lokeren, og hefur á rúmlega fimm ára meistaraflokksferli aðeins misst af samtals sex deildaleikjum með liðum sínum. Hann var í íslenska landsliðinu sem lék á EM í Frakklandi síðasta sumar og spilaði þar síðari hálfleikinn gegn Frökkum í átta liða úrslitum keppninnar. Sverrir hefur spilað 9 A-landsleiki og skorað í þeim 3 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert