Stjörnumaður syrgir fyrirliðann

Niclas Vemmelund í baráttunni við Árna Vilhjálmsson.
Niclas Vemmelund í baráttunni við Árna Vilhjálmsson. mbl.is/Styrmir Kári

Daninn Niclas Vemmelund, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, þekkti Ryan McBride, fyrirliða írska knattspyrnufélagsins Derry City, sem lést í gær, aðeins sólarhring eftir að hafa borið fyrirliðabandið í 4:0 sigri á Drogheda í A-deildinni. 

Vemmelund og McBride léku saman hjá Derry á síðustu leiktíð, en sá fyrrnefndi leikur nú með Dundalk í sama landi.

„Ég heyrði þetta í gærkvöldi. Ég er enn í miklu áfalli og það er erfitt að tala um þetta,“ sagði Vemmelund við danska miðilinn BT. 

Vemmelund mætti McBride um þarsíðustu helgi og sér Daninn eftir því að hafa ekki heilsað upp á gamla fyrirliðann sinn. 

„Ég sagði hvorki hæ né bæ. Það er eitthvað sem ég sé eftir núna, en auðvitað vissi ég ekki að hann myndi kveðja okkur svona skyndilega. Ég mun fara í jarðarförina, sem verður eflaust stór athöfn. Hann vann líka á vinsælum bar í bænum og það þekktu hann margir,“ bætti hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert