Brassarnir fyrstir að tryggja sig inn á HM

Neymar fagnar marki sínu.
Neymar fagnar marki sínu. AFP

Brasilíumenn urðu fyrstir til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM í knattspyrnu í Rússlandi á næsta ári eftir 3:0 sigur gegn Paragvæ í nótt.

Philippe Coutinho, Neymar og Marcelo skoruðu mörk Brassanna sem eru með 33 stig í S-Ameríkuriðlinum og hafa níu stiga forskot á Kólumbíumenn. Brasilíumenn hafa unnið 10 af 14 leikjum sínum og hafa aðeins tapað einum leik. 

Kólumbíumenn fögnuðu 2:0 sigri gegn Ekvadorum. James Rodriguez og Juan Cuadrado skoruðu mörkin í fyrri hálfleik. Ekvadorar léku manni færri síðasta hálftímann eftir að Luis Caicedo var rekinn af velli.

Síle komst upp fyrir Argentínumenn í fjórða sæti eftir 3:1 sigur á móti Venesúela. Esteban Paredes skoraði tvö af mörkum Síle og Alexis Sánchez eitt en mörkin skoruðu Sílemenn á fyrstu 24 mínútunum en Jose Salomon Rondon svaraði fyrir Venesúla í seinni hálfleik.

Úrúgvæ tapaði á heimavelli fyrir Perú, 2:1. Carlos Sanchez kom Úrúgvæ yfir en Jose Paolo Guerrero og Edison Flores skoruðu mörk Perúmanna.

Staðan eftir 14 umferðir af 18:

Brasilía 33
Kólumbía 24
Úrúgvæ 23
Síle 23
Argentína 22
Ekvador 20
Perú 18
Paragvæ 18
Bólivía 10
Venesúela 6

Fjórar efstu þjóðirnar tryggja sér sæti á HM en liðið í fimmta sæti fer í umspil við lið úr Eyjaálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert