Kári í 400 leikja hópinn

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Kári Árnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, komst í fámennan hóp íslenskra knattspyrnumanna um síðustu helgi þegar hann lék með liði sínu Omonia Nicosia gegn Anorthosis í úrslitakeppninni um meistaratitilinn á Kýpur.

Kári, sem er 34 ára gamall, lék þarna sinn 400. deildaleik á ferlinum en á undan honum höfðu aðeins tuttugu Íslendingar náð þeim áfanga. Þar eru efstir á blaði Arnór Guðjohnsen með 523 leiki, Ívar Ingimarsson með 520, Hermann Hreiðarsson með 512 og Eiður Smári Guðjohnsen með 504 leiki.

Þetta er sautjánda keppnisár Kára í meistaraflokki en hann hóf ferilinn með Víkingi í Reykjavík árið 2001. Hann lék 41 deildaleik með Víkingi, síðan 35 með Djurgården í Svíþjóð, 50 með AGF í Danmörku, 8 með Esbjerg í Danmörku, 72 með Plymouth á Englandi, 32 með Aberdeen í Skotlandi, 119 með Rotherham á Englandi, 37 með Malmö í Svíþjóð og nú hefur hann leikið 6 deildaleiki með Omonia á Kýpur eftir að hafa gengið til liðs við félagið snemma á þessu ári. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert