Í vitnastúkuna eftir Íslandsförina

Luka Modric, til hægri, ásamt liðsfélaga, Mateo Kovacic, með Evrópubikarinn …
Luka Modric, til hægri, ásamt liðsfélaga, Mateo Kovacic, með Evrópubikarinn á milli sín en báðir eru í króatíska landsliðinu sem mætir Íslendingum á sunnudaginn. AFP

Luka Modric og Dejan Lovren, tveir af stjörnuleikmönnum Króatíu sem mætir Íslandi á sunnudag í undankeppni HM karla í knattspyrnu, munu þurfa að bera vitni fyrir rétti í Króatíu vegna spillingarmáls.

Fréttaveitan AFP greinir frá þessu. Hvorki Modric né Lovren er grunaður um nokkuð saknæmt. Málið snýst um félagaskipti þeirra frá króatíska félaginu Dinamo Zagreb, en Modric var seldur þaðan til Tottenham árið 2008 og og Lovren til Lyon árið 2010. Modric leikur í dag með Real Madrid en Lovren með Liverpool.

Fyrrverandi stjórnendur hjá Dinamo eru grunaðir um að hafa dregið til sín fé í tengslum við sölu leikmannanna. Fjórir liggja undir grun en það eru Dravko Mamic, fyrrverandi formaður Dinamo, Zoran Mamic bróðir hans og fyrrverandi þjálfari, Damir Vrbanovic sem nú er framkvæmdastjóri króatíska knattspyrnusambandsins en var áður hjá Dinamo, auk endurskoðanda.

Áætlað er að Modric og Lovren muni bera vitni í Króatíu næstkomandi þriðjudag, tveimur dögum eftir leikinn mikilvæga við Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert