Ragnar Sigurðsson aftur til Rússlands

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson hefur yfirgefið herbúðir enska B-deildarliðsins Fulham eftir eins árs veru og hefur verið lánaður til Rubin Kazan í Rússlandi. Hann mun leika í treyju númer 5 hjá liðinu.

Miðillinn 433.is greindi fyrst frá þessu fyrir skemmstu. Ragnar kom til Fulham eftir Evrópumótið í Frakklandi í fyrra frá Krasnodar í Rússlandi, og heldur því aftur til landsins.

Ragnar verður ekki eini Íslendingurinn í rússnesku úrvalsdeildinni í vetur því Sverrir Ingi Ingason gekk í raðir FC Rostov í sumar.

Eftir þrjár umferðir í rússnesku deildinni er Rubin Kazan með þrjú stig en liðið mætir CSKA Moskva á útivelli í fjórðu umferðinni á sunnudaginn. Liðið endaði í 9. sæti af 16 liðum í deildinni á síðasta tímabili en varð rússneskur meistari árin 2008 og 2009.

Liðið er frá borginni Kazan sem er rúmlega 700 kílómetra austur af Moskvu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert