Knattspyrnulandslið karla lið ársins 2017

Birkir Már Sævarsson tekur við verðlaununum fyrir hönd liðsins.
Birkir Már Sævarsson tekur við verðlaununum fyrir hönd liðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalandslið Íslands í knattspyrnu var rétt í þessu útnefnt lið ársins 2017 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna en hátíðin vegna kjörsins stendur nú yfir í Silfurbergi í Hörpu.

Íslenska landsliðið náði sínum besta árangri frá upphafi með því að vinna undanriðil heimsmeistaramótsins þar sem það hafnaði fyrir ofan Króatíu, Úkraínu, Tyrkland, Finnland og Kósóvó og komst með því lokakeppni HM í fyrsta skipti.

Ísland er langfámennasta þjóðin sem komist hefur í lokakeppni HM og mætir Argentínu, Nígeríu og Króatíu í lokakeppninni í Rússlandi dagana 16. til 26. júní 2018.

Kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu hafnaði í öðru sæti í kjörinu og karlalið Vals í handknattleik varð í þriðja sætinu. Heildarniðurstöður verða birtar hér á mbl.is kl. 21.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert