Arnór stjarnan í Malmö: Stekk ekki á hvað sem er

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsmanninum Arnóri Ingva Traustasyni líður vel hjá sænska knattspyrnuliðinu Malmö og er opinn fyrir því að vera þar áfram. Hann mun þó skoða tilboð frá Evrópu komi þau upp að því er fram kemur í Expressen í dag.

Arnór Ingvi hefur gert það gott með Malmö á tímabilinu og hefur skorað sex mörk og lagt upp átta í deildinni fyrir lokaumferðina sem fer fram í dag og raunar er hann titlaður sem stjarna liðsins í fyrirsögn Expressen.

Þar eiga Malmö og Stokkhólmsliðin Djurgården og Hammarby  öll möguleika á því að vinna sænska meistaratitilinn. Djurgården þó mestan þar sem liðið hefur 65 stig, þremur meira en bæði Malmö og Hammarby.

Arnór á tvö ár eftir af samningi sínum við Malmö og er opinn fyrir því að framlengja samninginn enn frekar.

„Ég hef hugsað um það auðvitað. En ég vil klára þetta tímabil fyrst áður en ég sest niður og hugsa um framtíðina,” segir Arnór.

„Ég hef það mjög gott hérna og fjölskyldunni líður vel. Að stökkva á eitthvað bara til þess að komast til meginlands Evrópu kem ég ekki til með að gera aftur. Það verður þá að vera eitthvað mjög gott,” segir Arnór.

„Ef eitthvað kemur upp er klárt að ég mun skoða það en ég stekk ekki á hvað sem er,” segir Arnór sem hefur ekki rætt þessi mál nú þegar við forráðamenn Malmö en er klár að setjast niður og ræða málin þegar tímabilið kárast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert