Situr við vinstri hönd Guðs

AFP

Heimurinn syrgir nú Diego Armando Maradona, einn fremsta knattspyrnumann sem sögur fara af, en hann féll frá í vikunni, aðeins sextugur að aldri. Snilligáfa hans var engu lík og hægt verður að ylja sér við minningarnar svo lengi sem spyrnt verður á byggðu bóli.

Sem hendi væri veifað var þeim breytt í steypusíló. Stríðþjálfuðum mönnum og vöskum. Reid, Butcher, Fenwick og loks Shilton. Eða var þetta sjónvarpstæknin að stríða okkur? Búið að finna upp aðferð til að sýna kappleik í senn á venjulegum hraða og hægt. Eða á venjulegum hraða og hratt, eftir því hvernig á það er litið. Ef við tökum gömlu góðu eldhúslíkinguna var engu líkara en matreiðslumeistarinn hefði hafið arabíska sveðju hátt á loft til að kljúfa smjerstykki í tvennt. Mikið svakalega var þessi leikur ójafn. 

Þegar boltinn lá í netinu, eftir sprett sem í Argentínu tók örskotsstund en heila eilífð á Englandi, lá það strax fyrir: Enda þótt maður ætti eftir að verða hundrað og þriggja ára myndi maður aldrei sjá annað eins mark. Og þá erum við að taka samhengið út fyrir sviga. En að velja þennan stað, þessa stund til að skora mark aldarinnar, þúsaldarinnar! Átta liða úrslit HM 1986 á sjálfum Azteca-leikvanginum í Mexíkóborg frammi fyrir 114.580 áhorfendum. Ekki einu sinni almættið er þess umkomið að skrifa svona handrit. Þó var það óvænt skrifað inn í handritið fjórum mínútum áður, þegar senuþjófurinn, Diego Armando Maradona, fékk hönd þess lánaða til að koma Argentínu yfir í téðum leik gegn Englandi í eins konar framhaldsstríði um Falklandseyjar. Að hugsa sér, tvö frægustu mörk sparksögunnar

Maradona í þann mund að skora mark (þús)aldarinnar gegn Englendingum …
Maradona í þann mund að skora mark (þús)aldarinnar gegn Englendingum á Azteca-vellinum á HM 1986. AFP


gerð á fjögurra mínútna kafla í einum og sama leiknum.

Man hvernig stóllinn var á litinn

Við munum öll hvar við vorum stödd þegar þessi ósköp gengu á; sjálfur var ég heima hjá Hjalta vini mínum Hjaltasyni í Smárahlíðinni á Akureyri. Man meira að segja í hvaða stól ég sat og hvernig hann var á litinn. Hjalti sat ekki, heldur fór í loftköstum um stofuna enda gallharður aðdáandi goðsins. Gary Lineker klóraði í bakkann fyrir England en allt kom fyrir ekki. Maradona varð ekki stöðvaður.

Aumingja Belgum voru engin grið gefin í undanúrslitunum á sama velli; önnur tvö mörk þar og annað þeirra eins konar tilbrigði við undramarkið úr Englandsleiknum. Maðurinn virtist ekki hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir þessu. Belgísku varnarmennirnir reyndu hver um annan þveran að ryðjast út úr mynd, svo niðurlæging þeirra myndi ekki vara um aldur og ævi.

Vestur-Þjóðverjum tókst að koma í veg fyrir að Maradona skoraði í úrslitaleiknum en sáu á hinn bóginn ekki við gullsendingu hans, sem sprengdi vörn þeirra í tætlur. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Jorge Burruchaga og Argentína vann, 3:2, og fagnaði sínum öðrum heimsmeistaratitli. Auðvitað vinnur einn maður aldrei mót, hvað þá heimsbikarinn, en enginn hefur komist nær því í sparksögunni en Maradona í Mexíkó 1986. Ekki einu sinni sjálfur Pelé; þótt hann væri vissulega aðalstjarnan í Svíþjóð 1958 og Mexíkó 1970 þá lögðu aðrar kempur gjörva hönd á plóg. Maradona var með heilt lið, heila þjóð, á bakinu allt mótið en bognaði aldrei. Stóð teinréttur uppi með bikarinn í mótslok og enginn hefði getað sagt neitt hefði hann farið þráðbeint með gripinn heim í stofu. Þar átti hann heima.

Maradona á hátindinum; með heimsbikarinn sumarið 1986.
Maradona á hátindinum; með heimsbikarinn sumarið 1986. AFP


Það væri að bera í bakkafullan lækinn að rekja feril Maradona í löngu máli; allir fjölmiðlar í öllum löndum hafa verið barmafullir af því undanfarna daga enda erum við að tala um einn dáðasta og fremsta íþróttamann sögunnar. Margir telja hann þann besta sem reimað hefur á sig takkaskó í sögunni og flestir geta verið sammála mér um að aðeins þrír aðrir verðskuldi að vera nefndir í sömu andrá; téður Pelé, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo. Ígrundaður samanburður bíður þó betri tíma.

Argentínska undrið

Eins og flestir Íslendingar kynntist ég Diego Armando Maradona gegnum markasyrpur sem Bjarni Felixson sýndi í Ríkissjónvarpinu fyrir um fjórum áratugum, þegar kappinn lék ennþá heima í Argentínu, með Argentinos Juniors og Boca Juniors. Hann vantaði enn tíu daga upp á sextán ára afmælið þegar hann hlaut eldskírn sína með fyrrnefnda liðinu, svo bráðger var hann. Svíki minnið mig ekki endurtók Bjarni þessa syrpu eða syrpur reglulega enda augljóslega um undur og stórmerki að ræða. Bágt var um aðrar upplýsingar en gúgl hljómaði eins og hvert annað rugl á þeim árum.

Væntingarnar voru að vonum miklar víða þegar kappinn skaut upp kollinum á HM á Spáni sumarið 1982 með liði Argentínu sem hafði titil að verja. Maradona lék sinn fyrsta landsleik sextán ára, í febrúar 1977, en var sem frægt er ekki valinn í lokahópinn fyrir HM í Argentínu 1978. Þjálfaranum, César Luis Menotti, þótti hann enn of ungur. Þess vegna tafðist frumraun hans á þessu stærsta sviði heims um fjögur ár.

Maradona sýndi leiftur af snilligáfu sinni en fór samt aldrei almennilega á flug og var hálfpartinn sparkað út úr mótinu, í orðsins fyllstu merkingu, af harðsvíruðum varnarmönnum andstæðinganna. Gott ef Claudio gamli Gentile, ítalska hörkutólið, elti okkar mann ekki alla leið heim á hótel eftir leik. Svo alvarlega tók hann hlutverk sitt. Í stað Maradona stálu Zico og Sókrates til að byrja með senunni á Spáni og síðar Paolo Rossi. Prinsinn þurfti að bíða í önnur fjögur ár eftir að verða krýndur kóngur.

Dró liðið aftur alla leið í úrslitin

Ljóst var að Maradona myndi aldrei toppa HM í Mexíkó. Væntingar voru því ekki eins miklar þegar hann mætti til leiks á HM á Ítalíu 1990; hann var að detta í þrítugt (sem var „hærri“ aldur þá en í dag) og ekki eins dansandi sprækur og fyrr, auk þess sem ökklameiðsli háðu honum og liðið virkaði ekki eins gott og fjórum árum áður. Eins og einhver muni hverjir aðrir voru í því! Eftir erfiða byrjun og niðurlægjandi tap gegn Kamerún í fyrsta leiknum hökti liðið hins vegar í gang og Maradona dró það alla leið í úrslitaleikinn – aftur gegn Vestur-Þjóðverjum. Þá var bensínið hins vegar búið og Andreas Brehme gerði sigurmarkið úr víti undir lokin í leik sem var álíka leiðinlegur og leikurinn fjórum árum áður var skemmtilegur.

Þátttaka Maradona á fjórða heimsmeistaramótinu, í Bandaríkjunum 1994, varð endaslepp en hann var staðinn að notkun örvandi lyfja og sendur heim með skömm eftir aðeins tvo leiki. Dapurleg kveðjustund hjá kónginum en á þessum tíma var skrautlegt lífernið farið að taka sinn toll. Ekki þarf að segja nokkrum manni sem þetta les að Diego Maradona fór ekki nægilega vel með sig. Og á endanum kom að skuldaskilum.

Fyrir annan penna, annan pappír

En sú saga er fyrir annan penna, annan pappír. Nú skal glaðst yfir öllum minningunum sem goðið skilur eftir handa okkur hinum sem botnum hvorki upp né niður í því hvernig þetta allt saman var hægt. Fræg eru ummæli Frakkans Michels Platinis, eins fremsta samtímasparkanda Maradona: „Það sem ég gat gert við knött gat hann gert við appelsínu.“

Á ýmsu gekk hjá Maradona meðan hann lék með Börsungum.
Á ýmsu gekk hjá Maradona meðan hann lék með Börsungum. AFP


Félagsliðaferill Maradona var líka um margt vel heppnaður. Hann hleypti heimdraganum og gekk í raðir Börsunga á Spáni 1982. Ekki varð hann meistari þar en vann spænska bikarinn 1983. Snilligáfan var engum hulin, frægt var þegar áhangendur Real Madríd klöppuðu honum lof í lófa eftir undramark í El Clásico. Nokkuð sem gerist nær aldrei. Samt gekk ekki sem skyldi hjá Maradona í Katalóníu. Áfram var hann hundeltur af föntum þessa heims og náði sú eftirför hámarki þegar „Slátrarinn frá Bilbao“, Andoni Goikoetxea, fótbraut hann haustið 1983. Vorið 1984 mættust þeir á ný í úrslitaleik bikarsins í einhverjum alræmdasta kappleik sögunnar; þar sem hópslagsmál brutust út eftir að þolinmæði Maradona brast og hann missti stjórn á skapi sínu. Jóhann Karl Spánarkonungur og aðrir viðstaddur fylgdust agndofa með.

Napólitískur inn að beini

Þetta reyndist síðasti leikur Maradona fyrir Börsunga en sumarið 1984 gekk hann í raðir Napoli á Ítalíu, þar sem honum var tekið sem hverjum öðrum Guðssyni. Við tóku sjö ár – þau langbestu á ferli Maradona. Um var að ræða lítið lið á Suður-Ítalíu með sviplausa sögu en áður en Maradona kvaddi hafði hann skilað því tveimur meistaratitlum, 1986-87 og 1989-90, þeim fyrstu og einu í sögu Napoli. Þá lagði liðið Ásgeir okkar Sigurvinsson og félaga í Stuttgart í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða 1989. Ítalíudvöl Maradona lauk með leikbanni, eftir að hann féll á lyfjaprófi vegna kókaínneyslu. En hver nennir að muna eftir því í stóra samhenginu? Alltént ekki nokkur maður í Napoli, þar sem menn ræða það nú að nefna leikvang félagsins eftir kempunni. Það yrði virðingarvottur við hæfi. Fáir menn hafa líklega gert meira fyrir mannlífið þar um slóðir.

Napoliborg hefur eignast nýjan verndarengil.
Napoliborg hefur eignast nýjan verndarengil. AFP


Eftir að hafa kvatt Napoli sneri Maradona aftur til Spánar en fór ekki sérlega mikinn með Sevilla eina veturinn sem hann var þar. Neistinn var að miklu leyti horfinn. Ferlinum lauk heima í Argentínu, fyrst með Newell’s Old Boys og síðan Boca Juniors.

Því má ekki gleyma að Maradona spreytti sig síðar sem knattspyrnustjóri, helst ber þar að nefna að hann stýrði landsliði Argentínu í tæp tvö ár, frá 2008 til 2010, meðal annars á HM 2010 í Suður-Afríku, og náði glettilega góðum árangri, vann 18 leiki af 26.
Hann var að sjálfsögðu á besta stað í stúkunni þegar Ísland gerði jafntefli við Argentínu á HM í Rússlandi 2018.

Það var ekki bara snilldin sem hann færði okkur á vellinum, almenn smitandi lífsgleði og einlægni fylgdi Diego Armando Maradona alla tíð, enda þótt hann drægi auðvitað sína djöfla. Fyrir það ber að þakka að leiðarlokum þegar þessi mikli snillingur hefur fengið sér sæti við vinstri hönd Guðs föður almáttugs á himnum. Plássið hægra megin er sem kunnugt er frátekið – fyrir eldri bróður hans.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert