Sá markahæsti í sögunni

Cristiano Ronaldo fagnaði að hætti hússins í Portúgal í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnaði að hætti hússins í Portúgal í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo varð í kvöld markahæsti landsliðsmaður frá upphafi þegar hann skoraði tvívegis fyrir Portúgal gegn Írlandi í A-riðli undankeppni HM karla í knattspyrnu í Algarve í Portúgal.

Leiknum lauk með 2:1-sigri Portúgals en Ronaldo jafnaði metin fyrir Portúgala á 89. mínútu áður en hann skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

Ronaldo hefur nú skorað 111 landsliðsmörk fyrir Portúgala í 180 landsleikjum en hann deildi metinu yfir markahæstu landsliðsmenn frá upphafi með Ali Daie, fyrrverandi landsliðsmanni Írans.

Sóknarmaðurinn er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður sögunnar en hann skrifaði undir tveggja ára samning við Manchester United á dögunum.

Fimm sinnum hefur hann hlotið Gullknöttinn fræga. Þá hefur hann þrívegis orðið Englandsmeistari með United, tvívegis Spánarmeistari með Real Madrid og tvívegis Ítalíumeistari með Juventus.

Þá varð hann Evrópumeistari með Portúgal árið 2016 og alls hefur hann fimm sinnum orðið Evrópumeistari með félagsliðum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert