Stjóri Íslendingaliðsins tekur við Aberdeen

Jimmy Thelin, knattspyrnustjóri Elfsborg.
Jimmy Thelin, knattspyrnustjóri Elfsborg. Ljósmynd/elfsborg.se

Skoska knattspyrnufélagið Aberdeen hefur tilkynnt að Svíinn Jimmy Thelin muni taka við sem knattspyrnustjóri karlaliðsins í sumar.

Thelin er stjóri Elfsborg, sem Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson leika með, og hefur verið frá því í byrjun árs 2018.

Aberdeen hefur átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi tímabili þar sem Barry Robson var vikið frá störfum í byrjun árs, Neil Warnock tók við af honum í stutta stund án þess að ná að rétta úr kútnum og Peter Leven stýrir liðinu til bráðabirgða út tímabilið.

Liðið er sem stendur í níunda sæti af tólf liðum eftir að hafa hafnað í þriðja sæti á síðasta tímabili og fær Thelin það verkefni að bæta árangurinn frá og með næsta tímabili.

Eftirmaðurinn fundinn

Oscar Hiljemark, stjóri AaB í Danmörku, tekur við starfinu af Thelin þann 3. júní næstkomandi.

Undir stjórn Hiljemarks, sem varð Svíþjóðarmeistari með Elfsborg sem leikmaður árið 2012, er AaB komið langt með að tryggja sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni á ný, þar sem liðið er í öðru sæti, 17 stigum fyrir ofan liðið í þriðja sæti þegar sjö umferðir eru óleiknar. Tvö efstu liðin fara beint upp.

Með AaB leikur Nóel Arnórsson, sem Hiljemark hefur gefið sín fyrstu tækifæri í meistaraflokki á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert