New England Patriots sigraði í úrslitaleik ameríska fótboltans

AP

New England Patriots sigraði lið Philadelphia Eagles með 24 stigum gegn 21 í úrslitaleik ameríska fótboltans (NFL), sem fram fór í gærkvöldi, eða í nótt að íslenskum tíma.

Er þetta í þriðja sinn á fjórum árum sem Patriots sigrar í úrslitaleiknum, eða Superbowl, en Eagles hefur ekki sigrað í 45 ár.

Er Patriots eina ruðningsliðið, ásamt Dallas, sem hefur unnið Superbowl í þrjú skipti á fjórum árum en Patriots vann einnig árin 2002 og 2004.

Þetta var 10. sigur Bills Belichicks, þjálfara Patriots. Enginn þjálfari hefur náð betri árangri, en með sigrinum í nótt bætti Belichick met Vince Lombardis, þjálfara Green Bay Packers.

Á myndinni má sjá leikmann Patriots, Mike Vrabel, skora snertimark eftir sendingu frá félaga sínum, Tom Brady, sem er í hvítum búningi í bakgrunni.

Leikurinn fór fram í Jacksonville í Flórída.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert