Ísland náði ekki HM-sætinu

Bjarni Einarsson og Steinar Jónsson bíða þess að leikur við …
Bjarni Einarsson og Steinar Jónsson bíða þess að leikur við Ísraelsmenn hefjist. mynd/Þorsteinn Berg

Íslendingar urðu að sætta sig við 8. sætið á Evrópumótinu í brids, sem lauk í Pau í Frakklandi í dag. Ísland vann Frakkland, 20:10, í síðasta leik mótsins í morgun en sigurinn hefði þurft að vera stærri og úrslit í öðrum leikjum hagstæðari til að fleyta íslenska liðinu upp í sjötta sætið. Sex efstu sætin veittu keppnisrétt á næsta heimsmeistaramóti.

Norðmenn urðu Evrópumeistarar í fyrsta skipti en þeir eru einnig núverandi heimsmeistarar í brids. Sigurinn í Pau kom nokkuð á óvart en aðeins tveir úr heimsmeistaraliði Norðmanna Boye Brogeland og Geir Helgemo, spiluðu þar. Þrír í liðinu eru kornungir spilarar sem voru að taka þátt í sínu fyrsta Evrópumóti.

Norðmenn enduðu með  299 stig. Rússar urðu í 2. sæti með, 287 stig, Þjóðverjar urðu þriðju með 286, Búlgarar fjórðu með 285, Ítalar fimmtu með 279 og Hollendingar  sjöttu með 273 stig. Í sjöunda sæti komu Danir með 269 stig og Íslendingar fengu 265 stig.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert