Áttu hvorugt von á nafnbótinni

Eyþór og Sonja á Hótel Sögu í dag.
Eyþór og Sonja á Hótel Sögu í dag. Mbl.is/Golli

Sundgarparnir Sonja Sigurðardóttir og Eyþór Þrastarson, bæði frá ÍFR, voru útnefnd Íþróttafólk ársins af Íþróttasambandi fatlaðra í dag á Hótel Sögu. Þau sögðust hvorugt hafa átt von á nafnbótinni.

„Ég vissi ekki einu sinni að þessi verðlaun væru veitt! En þetta er mjög ánægjulegt,“ sagði Eyþór, sem fæddur er árið 1991. Hann keppir í flokki S11, en Eyþór er blindur frá fæðingu. Hann segir Ólympíumótið í Peking standa uppúr, þegar hann lítur yfir afrek ársins sem er að líða.

„Það var ótrúleg upplifun og breytti mér sem persónu, meira en margt annað. Ég lærði til dæmis að hugsa í markmiðum og ég fékk í raun fyrst áhuga á að synda á þessu Ólympíumóti,“ sagði Eyþór, sem bætti tíma sinn um 15 sekúndur er hann synti til úrslita í 400 m skriðsundi og lenti í áttunda sæti.

Sonja Sigurðardóttir keppir í flokki S5, en hún er með lítinn vöðvastyrk í öllum útlimum og lítinn sem engan styrk fyrir neðan hné og olnboga. hún átti heldur ekki von á nafnbótinni.

„Nei ég bjóst nú ekki við þessu, þetta kom svolítið á óvart,“ sagði Sonja af einskærri hógværð. Hún tekur í sama streng og Eyþór og segir Ólympíumótið standa uppúr á árinu.

„Það var ótrúleg upplifun. Ég setti mér engin markmið, önnur en þau að vera með og gera mitt besta,“ sagði Sonja, sem náði 10. sætinu í 50 m baksundi, en tími hennar, 57,90, var hennar besti árangur í tvö ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert