Hrafnhildur: Sá að gellan var komin á undan mér

Hrafnhildur Lúthersdóttir var ánægð með að ná í undanúrslitin.
Hrafnhildur Lúthersdóttir var ánægð með að ná í undanúrslitin. mbl.is/Golli

„Mér líður mjög vel. Ef ég á að segja eins og er þá var ég frekar stressuð fyrir sundið,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH eftir að hafa synt sig inn í undanúrslit í 200 metra bringusundi á HM í Barcelona í dag.

Hrafnhildur var fyrst Íslendinganna í Barcelona til að ná inn í undanúrslit eins og lesa má um hér. Rætt er við Hrafnhildi í meðfylgjandi myndskeiði hér að neðan. Hún varð í 16. sæti í morgun og því síðust inn í undanúrslitin.

„Ég tók eftir því í öðrum snúningnum, fyrir þriðju 50 metrana, að gella sem á lélegri tíma en ég var komin á undan mér. Þá hugsaði ég með mér að ég yrði nú að gera aðeins betur en þetta. Ég ákvað að taka aðeins meira á en ég geri venjulega og ég held að það hafi komið sér vel,“ sagði Hrafnhildur.

Hún syndir í undanúrslitum kl. 18 í kvöld að spænskum tíma eða kl. 16 að íslenskum tíma.

„Maður er yfirleitt betri á kvöldin en á morgnana þannig að ég held að ég eigi eitthvað inni,“ sagði Hrafnhildur sem gælir við að setja nýtt Íslandsmet.

„Vonandi. Það er engin leið nema upp á við þar sem ég er í 16. sætinu,“ sagði Hrafnhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert