Árangur, aðstaða, lífið og tilveran

Uppselt var á viðureign Íslands og Bonsíu í vikunni sólarhring …
Uppselt var á viðureign Íslands og Bonsíu í vikunni sólarhring áður en flautað var til leiks. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Árangur íslenska körfuknattleikslandsliðsins í karlaflokki hefur skyggt á flest annað í íslensku íþróttalífi á síðustu dögum, sem er vel. Íslenska karlalandsliðið tekur í fyrsta skipti í þátt í lokakeppni Evrópumeistaramóts.

Mótið fer fram eftir rúmt ár en ekki liggur enn fyrir hver verður gestgjafi þess eftir að mótahaldið var tekið úr höndum Úkraínumanna vegna upplausnar og stríðs sem ríkir í austurhluta landsins og enginn veit hverjar lyktir verða eða hvenær.

Hvernig sem þau hörmungarmál fara er ljóst að íslenskir körfuknattleiksmenn mæta með lið sitt á Evrópumeistaramótið ásamt 23 öðrum bestu körfuknattleikslandsliðum Evrópu. Þátttaka í mótinu verður íslenskum körfuknattleiksmönnum og stjórnendum landsliðsins ný lexía. Þeir hafa nú ár til þess að búa sig undir hana.

Í næsta mánuði fer fram fram hér á landi Evrópumeistaramótið í hópfimleikum. Íslensku landsliðin í þeirri nýlegu íþróttagrein hafa verið í fremstu röð á síðustu mótum og kvennalandsliðið oftar en einu sinni hampað verðlaunum, þar á meðal gullverðlaunum á síðustu mótum. Mikill metnaður hefur verið lagður í mótið og undirbúning þess utan vallar sem innan af hálfu Fimleikasambands Íslands. Okkur sem munum eftir HM í handbolta hér á landi 1995 og Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi, sem fram fór hér á landi fyrir fáeinum árum, þykir forráðamenn Fimleikasambandsins taka nokkuð stórt upp í sig að fullyrða að um sé að ræða stærsta íþróttaviðburð sem fram hefur farið hér á landi. En hvað um það.

Allt hefur verið lagt í sölurnar til þess að mótið takist sem best og íslensku liðin komi eins vel undirbúin til leiks og kostur er.

Fyrir utan keppnina sjálfa verður afar fróðlegt að sjá hvernig frjálsíþróttahöllin í Laugardal kemur út sem keppnishús þegar búið verður að setja upp stúku í kringum keppnisvöllinn sem mun rúma ríflega 4.000 áhorfendur í sæti. Ef vel tekst til er e.t.v. kominn forsmekkur að því sem koma skal við fleiri stóra íþróttaviðburði innanhúss á komandi árum.

Pistilinn í heild sinni má lesa í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert