Metaregn á aðventumóti Ármanns

Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir náði yfir 900 IAAF stigum eins og …
Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir náði yfir 900 IAAF stigum eins og Linda Björk Valbjörnsdóttir. mbl.is/Ernir

Aðventumót Ármanns var haldið í dag í Laugardalshöll. Mótið má segja að marki upphaf keppnistímabils í frjálsum íþróttum og margir bættu sinn persónulega árangur, auk þess sem fjögur aldursflokkamet voru sett.

Það voru eftirfarandi:

Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Ármanni hljóp 60 metra á 8,25 sekúndum sem er met í flokki 12 ára stúlkna., gamla metið var: 8,30 sekúndur. Styrmir Dan Hansen Steinunnarson úr Þór, Þorlákshöfn stökk 1,93m í hástökk pilta 15 ára. Gamla metið var 1,91m.

Daði Arnarson úr Fjölni hljóp 800m á 2:03,43 mínútum og bætti met í flokki 15 ára pilta sem var 2:04,36 mínútur. Sæmundur Ólafsson ÍR hljóp 1500m á 3:56,42 mínútum og bætti metið í flokki 18-19 ára sem var 3:58,37 mínútur í eigu Kára Steins Karlssonar. Skemmtilegt er að segja frá því að Kári Steinn aðstoðaði Sæmund við að bæta met sitt í hlaupinu í dag. Hann hélt uppi hraða eða ,,héraði".

Á mótinu náðu tveir keppendur yfir 900 IAAF stig. Það voru þá Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir úr ÍR og Linda Björk Valbjörnsdóttir úr UMSS, báðar í 60m hlaupi kvenna. Voru þær verðlaunaðar sérstaklega.

Fjöldi keppenda var 181. Alls voru 406 árangurslínur skráðar (1 lína = eitt afrek í stökki, kasti eða hlaupi) . Af þessum 406 árangurslínum voru 156 bætingar eða persónuleg met. Það er keppendur bættu sig í rúmleg 38% tilvika! Verður það að teljast einstaklega gott.

Heildarúslit mótsins má finna á heimasíðu Ármenninga hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert