Ódæl systkini ekki til Íslands

Nicola Muscat og Neil Muscat höguðu sér ekki sem skyldi …
Nicola Muscat og Neil Muscat höguðu sér ekki sem skyldi að mati forráðamanna sundsambands Möltu.

Sundsamband Möltu hefur ákveðið að systkinin Neil og Nicola Muscat verði ekki með í för þegar fulltrúar þjóðarinnar halda til Íslands um helgina á Smáþjóðaleikana sem fram fara í Reykjavík 1.-6. júní.

Nicola átti að vera eina sundkonan í maltneska hópnum en var rekin þaðan eftir að hafa sýnt óviðunandi hugarfar á æfingum um helgina, samkvæmt heimildum miðilsins Times of Malta. Áður hafði bróðir hennar, Neil, verið tekinn út úr hópnum af sömu sökum.

Matthew Galea kom inn í hópinn í staðinn fyrir Neil en Nicola datt hins vegar út svo seint að ekki er lengur leyfilegt að fylla í hennar skarð. Það mætti aðeins hefði hún meiðst en sú er ekki raunin, eins og Mario Micallef, formaður ólympíunefndar Möltu, staðfesti.

Nicola er 21 árs og keppti fyrir hönd Möltu á Ólympíuleikunum í London 2012, í 50 metra skriðsundi. Neil er fjórum árum yngri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert