Fjölmennasta Stórmót ÍR-inga

Aníta Hinriksdóttir er skráð til leiks í 400 m hlaupi …
Aníta Hinriksdóttir er skráð til leiks í 400 m hlaupi á Stórmóti ÍR.

Margt af besta frjálsíþróttafólki landsins verður á meðal þátttakenda á Stórmóti ÍR sem haldið verður í tuttugasta skipti í dag og á morgun í Laugardalshöllinni.

Mótið er fjölmennara en nokkru sinni fyrr en samkvæmt ir.is hafa 877 keppendur skráð sig til leiks. Í þeim hópi eru 63 Færeyingar og einn Bandaríkjamaður. Metið sem sett var í fyrra, 820 keppendur, verður því slegið.

Stærstur hluti keppenda kemur úr yngri aldursflokkunum en í keppni karla og kvenna hafa ÍR-ingar boðið besta frjálsíþróttafólki landsins í völdum greinum til keppni. Í þeim hópi eru m.a. Aníta Hinriksdóttir, Arna Stefanía Guðmundsdóttir, Óðinn Björn Þorsteinsson og Kolbeinn Höður Gunnarsson, svo einhverjir séu nefndir.

Margir keppenda eru með það í sigtinu að freista þess að tryggja sér keppnisrétt á Norðurlandamótinu sem fer fram í Växjö í Svíþjóð um næstu helgi.

Vala Flosadóttir, bronsverðlaunahafi í stangarstökki á Ólympíuleikunum 2000 og íþróttamaður ársins sama ár, er sérstakur gestur á mótinu ásamt sigurvegurum í keppnisgreinum fyrsta mótsins sem haldið var árið 1997. Í þeim hópi eru m.a. tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon og hástökkvarinn Þórdís Gísladóttir.

Keppt er frá kl. 9 til 18.10 í dag og 10 til 17 á morgun en keppnisdagskrána í heild er að finna á ir.is og í mótaforritinu Þór á fri.is. vs@mbl.is

Vala Flosadóttir varð Evrópumeistari innanhúss 1996 og setti Norðurlandamet á …
Vala Flosadóttir varð Evrópumeistari innanhúss 1996 og setti Norðurlandamet á fyrsta stórmóti ÍR, 1997. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert