Ekki mér að kenna að Conor keppir ekki

Conor McGregor tapaði fyrir Nate Diaz þegar þeir mættust á …
Conor McGregor tapaði fyrir Nate Diaz þegar þeir mættust á UFC 196 í mars. AFP

Dana White, forseti UFC, segir að Conor McGregor geti sjálfum sér um kennt að hann muni ekki keppa á UFC 200 bardagakvöldinu í Las Vegas 9. júlí.

„Ég kom ekki í veg fyrir að Conor myndi berjast á UFC 200. Hann vissi hvernig málum væri háttað. Ég sagði honum hvernig málum væri háttað. Hann kaus að gera þetta,“ er haft eftir White á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Sem kunnugt er þá tilkynnti McGregor óvænt að hann væri hættur í UFC fyrir skömmu, en tók það svo tilbaka og skrifaði langan pistil um það að hann vildi einbeita sér að því að keppa í stað þess að uppfylla öll skilyrði White og félaga um fjölmiðlafundi og annað markaðsstarf. McGregor fullyrti svo meira að segja á Twitter-síðu sinni að hann myndi keppa á UFC 200, en White leiðrétti það.

White sagðist vel skilja að aðdáendur McGregors væru ósáttir við að fá ekki að sjá hann mæta Nate Diaz aftur þann 9. júlí, en ákveðið hefur verið að Bandaríkjamennirnir Jon Jones og Daniel Cormier mætist í þeirra stað. White segir að McGregor muni hins vegar keppa síðar:

„Conor mun berjast aftur. Hann mun berjast á UFC 201, 202, 203 eða hvað svo sem að samið verður um,“ sagði White.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert