Helgi fær harða keppni á Akureyri

Helgi Sveinsson og Runar Steinstad
Helgi Sveinsson og Runar Steinstad Ljósmynd/Kári Jónsson

Einn helsti keppinautur Helga Sveinssonar, Evrópumeistara í spjótkasti fatlaðra, er mættur til landsins og mætir honum á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Akureyri á morgun.

Þetta er Norðmaðurinn Runar Steinstad sem er einn af reyndustu spjótkösturum heims og verður einn af mótherjum Helga í sameinuðum flokkum F42, 43 og 44 á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó de Janeiro í september.

Runar stóð Helga framar um tíma og fékk m.a. bronsverðlaun á mótinu í London 2012 þegar Helgi náði ekki á verðlaunapallinn. Eftir það hefur Helgi staðið honum framar og varð heimsmeistari 2013 og Evrópumeistari 2014 og 2016.

Runar kastar jafnan um eða rétt yfir 50 metrana. Helgi er heimsmethafi í greininni en hann kastaði 57,36 metra á móti í Kaplakrika í fyrra og varð þriðji á heimsmeistaramótinu 2015 í Katar í október.

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í frjálsíþróttum er hluti af Meistaramóti Íslands og þeir Helgi og Runar keppa klukkan 18 á morgun á Þórsvellinum á Akureyri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert