Hann gæti sett nýtt heimsmet

Svíar vonuðust til að Daniel Ståhl myndi keppa um verðlaun …
Svíar vonuðust til að Daniel Ståhl myndi keppa um verðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann hefði orðið ólympíumeistari með sams konar kasti og í gær. AFP

Sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl, lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar, átti heimsins lengsta kast í ár um helgina þegar hann kastaði 68,72 metra og vann sænska meistaramótið.

Ståhl hefði augljóslega orðið ólympíumeistari í Ríó með svona kasti fyrr í þessum mánuði, en þar vann Þjóðverjinn Christoph Harting með 68,37 metra kasti. Ståhl kastaði hins vegar aðeins 62,26 metra á Ólympíuleikunum og komst ekki upp úr forkeppninni.

Ståhl, sem er 24 ára, bætti sinn besta árangur um 1,86 metra með kastinu um helgina. Vésteinn segir það ekki hafa komið sér á óvart.

„Ég tel að hann muni geta kastað yfir 70 metra strax á næsta ári og að hann geti farið að reyna við sænska metið, sem er 71,26 metri (sett af Ricky Bruch). Síðan er það mín skoðun að ef það er einhver sem getur sett nýtt heimsmet þá sé það strákur eins og Daniel,“ sagði Vésteinn við Aftonbladet.

Heimsmetið í kringlukasti er orðið 30 ára gamalt en það er 74,08 metrar, sett af Jürgen Schult sem keppti fyrir Austur-Þýskaland. Það er eitt af elstu heimsmetunum í frjálsum íþróttum og því hefur sjaldan verið ógnað, en Gerd Kanter, fyrrverandi lærisveinn Vésteins, komst þó nálægt því þegar hann var upp á sitt besta. Eistlendingurinn kastaði 73,38 metra í Helsingborg fyrir 10 árum, og varð síðan ólympíumeistari í Peking 2008.

„Ég þjálfaði Gerd Kanter þá en það býr mikið meira í Daniel. Daniel og ólympíumeistarinn Christoph Harting eru þeir einu sem geta náð svona rosalegum vegalengdum. Það þýðir ekki að hann muni gera það, en að mínu mati getur hann það,“ sagði Vésteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert