Heldur að Gunnar Nelson sé Íri

Alan Jouban mætir Gunnari Nelson í London í mars.
Alan Jouban mætir Gunnari Nelson í London í mars. APS

Gunnar Nelson berst við Bandaríkjamanninn Alan Jouban í UFC í London 18. mars næstkomandi. 

Jouban er búinn að vinna síðustu þrjá bardaga sína í UFC, en Gunnar er fyrsti andstæðingur hans sem er á topp 10 á heimslistanum. Þrátt fyrir það er Jouban mjög kokhraustur fyrir bardagann. 

„Gunnar er góður bardagamaður en ég ætla að vinna hann því ég hef allt sem til þarf. Ég hef hugarfarið, er í góðu formi og ég er einbeittur og ætla að sýna hvað ég get. Ég ætla að klára Gunnar Nelson og þá get ég komist í titilbaráttuna.“

Spyrillinn spurði Jouban svo hvernig það væri að keppa í London, þar sem Gunnar ætti að fá mikinn stuðning aðdáanda þar sem hann er Íri. Jouban leiðrétti hann ekki, heldur virtist hann ekki hafa hugmynd um að Gunnar væri í raun íslenskur. 

„Fyrir mér er London heimavöllur þar sem umboðsmaðurinn minn er búsettur þar. Gunnar mun pottþétt hafa fjölskylduna sína þar, sitt fólk og sína stuðningsmenn,“ sagði Jouban. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert