Magnús Bess Íslandsmeistari í vaxtarækt

Hafsteinn Máni Guðmundsson og Magnús Bess Júlíusson.
Hafsteinn Máni Guðmundsson og Magnús Bess Júlíusson. Ljósmynd/fitness.is

Íslandsmótið í fitness fór fram um páskana í Háskólabíó þar sem 109 keppendur stigu á svið á þessu stærsta fitnessmóti ársins. Á skírdag var keppt í karlaflokkum og á föstudaginn langa í kvennaflokkum en alls var keppt í sex keppnisgreinum og að lokinni keppni í hverjum flokki var keppt um heildarsigurvegara hverrar keppnisgreinar.

Fitnessflokkur karla gríðarlega sterkur

Að öðrum keppnisflokkum ólöstuðum verður að segjast að fitnessflokkur karla hefur líklega aldrei sést jafn sterkur á sviði. Þarna mættu margir af sterkustu keppendum landsins og eins og heyrðist sagt í salnum „eintómir konungar á sviðinu“. Þar voru saman komnir margir reynsluboltar. Þorlákur Sigurbjörn Sigurjónsson stóð uppi sem sigurvegari eftir mjög jafna baráttu við Elmar Diego en einungis tvö stig skildu þá að. Baráttan upp í sjötta sæti var hinsvegar mjög jöfn enda allir að mæta í sínu besta formi.

Í unglingaflokki var baráttan sömuleiðis hörð en þar sigraði Alexander Guðjónsson sem mætti í sínu besta formi.

Unglingurinn og öldungurinn mættust í vaxtarræktinni

Magnús Bess Júlíusson varð Íslandsmeistari í vaxtarrækt. Hann er einn langreyndasti keppandi Íslandssögunnar í vaxtarrækt og mætti í frábæru formi. Það þarf ekki að kynna Magnús fyrir áhugafólki um líkamsrækt, en hann sigraði sinn flokk í vaxtarræktinni með afgerandi stigafjölda. Hann sigraði einnig flokk 40 ára og eldri þar sem Gunnar Ársæll Ársælsson varð annar. Hafsteinn Máni Guðmundsson varð Íslandsmeistari unglinga í vaxtarrækt en hann blandaði sér einnig í baráttuna um efstu sætin í vaxtarræktinni þar sem hann varð í öðru sæti á eftir Magnúsi Bess.

Hrannar Ingi, Ólafur Einir og Torfi Hrafn sigruðu í sportfitness

Í sportfitness voru það þeir Hrannar Ingi Óttarsson, Ólafur Einir Birgisson og Torfi Hrafn Ólafsson sem sigruðu sína flokka. Hrannar Ingi varð Íslandsmeistari unglinga en hann varð sömuleiðis annar í heildarkeppninni. Ólafur Einir sigraði heildarkeppnina.

Margrét Gnarr og Davíð Alexander Íþróttamenn ársins hjá IFBB á Íslandi

Margrét Gnarr er fyrsti íslendingurinn sem nær þeim árangri að keppa meðal atvinnumanna á Olympía mótinu í Bandaríkjunum. Hún hafnaði þar í 13. sæti af 42 avinnumönnum en mótið er hið sterkasta sinnar tegundar og hefur komið mönnum eins og Arnold Schwartzenegger á kortið. Hún sigraði á þremur atvinnumannamótum á síðastliðnu ári. David Alexander varð heildarsigurvegari í vaxtarrækt á báðum innanlandsmótunum á síðasta ári og komst í úrslit á Evrópumótinu á síðasta ári. Bæði verðskulda þau því að hljóta titilinn íþróttamaður ársins hjá Alþjóðasambandi líkamsræktarmanna á Íslandi. Í ár var þessi titill í fyrsta skipti veittur bæði karli og konu og verður hafður sá háttur á framvegis.

Barátta í módelfitness

Byrjendaflokkurinn í módelfitness var það fjölmennur að skipt var upp í tvo hæðarflokka. Edda Ásgrímsdóttir byrjaði á að sigra lægri flokkinn en hún sigraði einnig undir 168 sm flokkinn sem er góður árangur á hennar fyrsta móti. Gunnhildur Kjartansdóttir sigraði hærri flokkinn en í unglingaflokki var það Tanja Rún Freysdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari og Ingibjörg Kristín Gestsdóttir sigraði í flokki 35 ára og eldri.

Elísa Weisshappel sigraði í undir 163 sm flokki og Aníta Rós Aradóttir sigraði í yfir 168 sm flokki en þegar í heildarkeppnina var komið var keppnin mjög jöfn. Þar var það Aníta Rós Aradóttir sem stóð uppi sem heildarsigurvegari eftir mjög jafna keppni.

Alda Ósk Íslandsmeistari í ólympíufitness

Einungis einn keppandi var í ólympíufitness kvenna að þessu sinni. Alda Ósk Hauksdóttir sýndi flotta takta sem bættu upp fámennið en eins undarlegt og það nú er þá er hennar flokkur einn sá fjölmennasti á mörgum alþjóðlegum mótum en hér á landi hefur flokkurinn verið fámennur eftir að vaxtarrækt kvenna lagðist af. Vonandi á eftir að fjölga í þessum flokki á næstu árum enda fjöldi kvenna sem gæti látið til sín taka á þessu sviði.

Spennandi keppni í fitnessflokkum kvenna

Það varð til ný stjarna í fitnessflokkum kvenna þegar Bergrós Kristjánsdóttir sigraði bæði unglingaflokkinn og undir 163 sm flokkinn í fitness kvenna. Bergrós skartar sérlega vönduðu samræmi og hóflegum vöðvamassa sem fellur vel að þessari keppnisgrein. Hún varð mjög undrandi yfir úrslitunum en dómarar voru nokkuð sammála um niðurstöðuna.

Í fitnessflokki kvenna yfir 163 sm sigraði Inga Hrönn Ásgeirsdóttir sem sigraði einnig heildarkeppnina. Keppnin í hennar flokki var mjög spennandi og jöfn á milli efstu sæta en á eftir henni varð Ingibjörg Magnúsdóttir í öðru sæti en einungis munaði þremur stigum á á milli þeirra.

Lesa má nánar um úrslit keppninnar og sjá fleiri myndir á fitness.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert