Vildi klára bardagann sjálfur

Bjarki Þór hafði betur gegn Alan Procter í nótt.
Bjarki Þór hafði betur gegn Alan Procter í nótt. Ljósmynd/Rúnar Geirmundsson

Bjarki Þór Páls­son sigraði Englendinginn Alan Procter öðru sinni í gærkvöldi. Þeir áttust við á Fighstar 9 bardagakvöldinu sem fram fór í Brentford Fountain Leisure Center-íþróttahöllinni í London. 

Fyrri bardagi þeirra fór fram í desember en þá var Bjarka dæmdur sigur eftir að hafa fengið í sig ólöglegt hnéspark sem varð þess valdandi að hann rotaðist. Báðum bardagamönnum var það kappsmál að fá að mætast aftur og útkljá málin. 

Bjarki var með stjórn á bardaganum nær allan tímann og var með talsverða yfirburði. Í annarri lotu dró til tíðinda og eftir að Bjarki hafði komið Procter í óþægilega stöðu í gólfinu og látið höggin dynja þá stoppaði dómarinn bardagann. 

Þetta var erfiður bardagi. Við komum báðir vel undirbúnir og ég fann það að hann ætlaði að gefa allt í þetta. Ég var nokkuð viss fyrir bardagann um það að glíman mín myndi vera sterkasta vopnið á móti honum og þess vegna sótti ég fast í að ná taki á honum og glíma. Það reyndist rétt og á endanum þá var það í gólfinu sem bardaginn vannst,“ sagði Bjarki Þór og bætti við að hann væri ótrúlega glaður.

„Það vó þungt á mér að koma þessum bardaga út úr kerfinu. Þó svo að mér hafi verið dæmdur sigur í seinasta bardaga þá var mér mikið í mun að klára þetta á mínum verðleikum. Og ég tel mig hafa gert það.“

Ýmislegt gekk á í aðdraganda bardagans en að loknum bardaga féllust Bjarki og Procter í faðma. „Við töluðum ágætlega saman eftir bardagann. Þetta er vænn drengur, svona þegar hann er ekki að kýla mann í andlitið, og þó svo að einhver orð hafi fallið í aðdraganda bardagans þá er bara kærleikur okkar í milli í dag,“ sagði Bjarki og bætti við að andstæðingurinn væri mjög fyndinn. „Hann á framtíð fyrir sér sem uppistandari þegar bardagaferlinum lýkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert