Sunna Rannveig berst í júlí

Sunna Rannveig í bardaga sínum gegn Mallory Martin.
Sunna Rannveig í bardaga sínum gegn Mallory Martin. Ljósmynd/Joe Witcowski

Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir hefur fengið næsta bardaga sinn staðfestan. Hún mætir hinni bandarísku Kelly D'Angelo á Invicta FC 24 bardagakvöldinu í Kansas í Bandaríkjunum þann 15. júlí næstkomandi. 

Sunna og D'Angelo eiga báðar tvo atvinnubardaga að baki og hafa þær báðar unnið tvo fyrstu bardaga sína sem atvinnumenn. Sunna barðist seinast á Invicta 22 bardagakvöldinu í mars síðastliðinn þar sem hún hafði betur gegn Mallory Martin. 

„Það mætti segja að mig sé búið að klæja í hnúana undangengnar vikur. Ég setti mér markmið um að berjast fjórum sinnum á þessu ári og þess vegna er ég afar fegin að fá bardaga svona fljótt aftur," sagði Sunna. 

Eins og áður segir berst hún þann 15. júlí næstkomandi. Degi seinna berst Gunnar Nelson við Santiago Ponzinibbio í Skotlandi. Það eru því spennandi tímar fram undan fyrir íslenskt áhugafólk um blandaðar bardagalistir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert