Matthildur þriðja sterkasta stelpa í heimi

Matthildur Óskarsdóttir.
Matthildur Óskarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Matthildur Óskarsdóttir hafnaði í dag í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fer í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Matthildur keppti í -72 kg stúlknaflokki, en hún er aðeins 17 ára gömul.

Matthildur setti nýtt Íslandsmet í hnébeygju þegar hún beygði 130 kg sem skilaði bronsi í greininni, en áður höfðu 120 og 125 kg farið upp. Í bekkpressu lyfti hún þyngst 87,5 kg sem einnig er Íslandsmet og skilaði bronsi í greininni. Hún gerði einnig gildar lyftur með 80 og 82,5 kg.

Hún náði svo þriðja einstaka bronsinu í réttstöðulyftu þegar hún lyfti 147,5 kg eftir að hafa einnig lyft 135 og 142 kg. Samtals lyfti hún því 365 kg sem er nýtt Íslandsmet, auk þess sem hún átti níu gildar lyftur.

Það skilaði henni í þriðja sæti á mótinu og má því sannarlega segja að hún sé þriðja sterkasta stelpa í heimi í sínum flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert