Semenya í sérflokki í grein Anítu

Caster Semenya kemur fagnandi í mark í úrslitahlaupinu í London …
Caster Semenya kemur fagnandi í mark í úrslitahlaupinu í London í kvöld. AFP

Hin suður-afríska Caster Semenya vann öruggan sigur í keppnisgrein Anítu Hinriksdóttur, 800 metra hlaupi, á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í London í kvöld.

Semenya hljóp á frábærum tíma, eða 1:55,17 mínútum, sem er besti tími hennar frá upphafi. Hún hljóp á eftir Francine Niyonsaba frá Búrúndí og Charlene Lipsey frá Bandaríkjunum þar til á síðustu 60 metrunum þegar Semenya stakk þær hreinlega af með mögnuðu endaspretti.

Tími Semenya er sá besti á þessu ári og til samanburðar um fimm sekúndum betri en Íslandsmet Anítu. Niyonsaba, sem hafði forystu lengst af í hlaupinu, kom önnur í mark á 1:55,92 og Lipsey fékk bronsverðlaun á 1:56,65. Allir átta hlaupararnir í úrslitahlaupinu hlupu undir 1:59,00 mínútum.

Hellen Obiri frá Keníu varð heimsmeistari í 5.000 metra hlaupi af miklu öryggi, en hún setti í fluggír á lokasprettinum og vann á 14:34,86 mínútum. Almaz Ayana frá Eþíópíu varð í 2. sæti á 14:40,35 mínútum og Sifan Hassan frá Hollandi fékk bronsverðlaunin, en hún hljóp á 14:42,73 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert