Eiginlega ólýsanleg tilfinning

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson með verðlaunagripinn á sviðinu í Hörpu …
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson með verðlaunagripinn á sviðinu í Hörpu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, íþróttamaður ársins 2019 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna, sagði við mbl.is rétt eftir að kjörinu var lýst í Hörpu í kvöld að tilfinningin sem fylgdi titlinum væri ólýsanleg.

„Þetta er eiginlega ólýsanleg tilfinning og þessi titill, íþróttamaður ársins, hefur fyrir löngu skapað sér sess í hugum og hjörtum landsmanna. Þessi viðburður hér í kvöld er eitthvað sem ég hef horft á í sjónvarpinu síðan ég var lítill krakki, allt þangað til mér var farið að vera boðið að mæta hingað í þetta hóf fyrir nokkrum árum. Að standa þarna uppi á sviðinu var ótrúlega gaman og mikill heiður," sagði Júlían.

Fannst þér þegar þú mættir í kvöld að þú ættir möguleika á að standa uppi sem sigurvegari?

„Já, það var einhver spenna í loftinu og ég ætla að segja eins og stjórnmálamennirnir segja alltaf þegar þeir eru að fara að tilkynna framboð, að ég hafi fundið töluverðan meðbyr í samfélaginu. Maður veit auðvitað aldrei neitt en þetta var ekki mjög fjarri mér," sagði Júlían.

Hann er fyrsti kraftlyftingamaðurinn í 38 ár sem er kjörinn íþróttamaður ársins en Skúli Óskarsson hlaut titilinn árin 1978 og 1980 og Jón Páll Sigmarsson árið 1981. Júlían sagði að hann hefði haft góð kynni af Skúla um árabil.

„Skúli Óskars er auðvitað lifandi goðsögn, mætir á mót af og til og er mjög hvetjandi og skemmtilegur. Ég þekki hann fyrst og fremst í því hlutverki þó maður hafi auðvitað séð allt þetta myndefni sem til er af þessum köppum. Ég fæddist síðan rétt eftir að Jón Páll féll frá, þannig að ég sá þá aldrei í beinni, ef svo má að orði komast. En mér finnst ótrúlega mikið gleðiefni að kraftlyftingar skuli vera komnar aftur í deigluna, og eins og ég minntist á í ræðunni áðan, þá er þetta starf sem hefur verið unnið innan kraftlyftingasambandsins á seinni árum gríðarlega jákvætt og er mikilvægur hluti af þessu," sagði Júlían við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert