Íslandsmótið í holukeppni hefst á morgun í Grafarholti

Frá Grafarholtsvelli.
Frá Grafarholtsvelli. grgolf.is

Það er stutt stórra högga á milli hjá íslenskum kylfingum þessa dagana. Á morgun hefst Íslandsmótið í holukeppni á Grafarholtsvelli. Holukeppni er hið upphaflega form golfleiksins, en þá er keppt um hverja holu fyrir sig. Rétt til þátttöku hafa þeir kylfingar sem náð hafa í stig á KB banka mótaröðinni, 64 stigahæstu karlarnir og 16 stigahæstu konurnar. Leikið er með útsláttarfyrirkomulagi og má kannski segja að hér sé um að ræða bikarkeppni kylfinga.

Þátttaka er með ágætum í karlaflokki, en þar eru skráðir til leiks 56 keppendur, en aðeins 8 í kvennaflokki. Ástæðu fyrir dræmri þátttöku má meðal annars rekja til þess að Íslandsmót unglinga fer fram á sama tíma á Garðavelli á Akranesi, en bestu unglingarnir eru allir ofarlega á stigalista fullorðinna á KB mótaröðinni.

Stigahæsti karlinn er Ólafur Már Sigurðsson úr GR og mun hann sitja yfir í 1. umferð ásamt 8 stigahæstu körlunum. Meðal þeirra eru Sigmundur Einar Másson, nýkrýndur Íslandsmeistari, Ottó Sigurðsson, sem hefur titil að verja, Magnús Lárusson og Sigurpáll Geir Sveinsson.

1.umferð hjá konum byrjar í 8 manna úrslitum þar sem ekki eru nógu margar konur skráðar til leiks til að hefja leik í 16 manna úrslitum eins og reglugerð kveður á um.

Karlarnir hefja leik kl. 8:00 á morgun (miðvikudag), en konurnar hefja leik kl. 8:00 á fimmtudag. Mótinu lýkur á föstudaginn og verða þá krýndir nýir Íslandsmeistarar í holukeppni. Ragnhildur Sigurðardóttir GR og Ottó Sigurðsson GKG eiga titil að verja en þau eru bæði skráð til leiks. Ragnhildur lenti sem kunnugt er í öðru sæti í Íslandsmótinu í höggleik, eftir æsispennandi baráttu við Helenu Árnadóttur. Ottó sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni í fyrra eftir harða baráttu við Pétur Óskar Sigurðsson úr GR.

Íslandsmótið í holukeppni er fyrsta stigamótið sem leikið er á Grafarholtsvelli í tvö ár, en síðast var leikið þar á Íslandsmótinu í holukeppni 2004. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á vellinum í haust og sumar, m.a. hafa verið byggðar nýjar flatir á 4.,8., og 12. flöt og nýir teigar á 2. og 11. braut. Völlurinn lítur vel út. Flatirnar eru slegnar í 3 mm hæð og stefnt er að því að ná 12 feta hraða á stimpmæli á flötunum, en það er sami leikhraði og notaður er á evrópsku mótaröðinni í golfi (European Tour). Mikilli veðurblíðu er spáð mótsdagana og fólk hvatt til að líta í Grafarholtið meðan á mótinu stendur.

Karl Ómar Karlsson, golfkennari, mun vera í Básum á miðvikudag milli kl. 11 og 14 með KB golfþrautir fyrir yngri kynslóðina. Þangað eru allir velkomnir.

Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá GR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert