Donald Trump og skoskur sjómaður í hár saman

Donald Trump er ósáttur við skoska sjómanninn sem vill ekki …
Donald Trump er ósáttur við skoska sjómanninn sem vill ekki selja landið sitt undir golfvöllinn sem Trump vill byggja. Reuters

Bandaríski auðkýfingurinn Donald Trump hefur á undanförnum misserum unnið að því að útbúa golfsvæði í hæsta gæðaflokki rétt utan við Aberdeen í Skotlandi. Trump gerir ráð fyrir því að tveir 18 holu vellir verði á svæðinu, auk 450 herbergja 5 stjörnu hótels. Og á svæðið að vera einstakt í veröldinni.

Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn við framkvæmdirnar verði allt að 123 milljarðar kr. en Trump hefur ekki náð að tryggja sér allt landið sem þarf undir framkvæmdirnar vegna deilna hans við sjómann sem á landareign á miðju golfvallarsvæðisins.

Framkvæmdirnar eru ekki hafnar en samkvæmt frétt The Times hefur Trump ekki náð að heilla Michael Forbes, 55 ára gamlan sjómann, sem býr í næsta nágrenni við fyrirhugað golfvallarsvæði. Forbes hefur neitað að selja landareign sína við ströndina þrátt fyrir ítrekuð tilboð frá Trump og hafa deilur þeirra magnast að undanförnu og má segja að þeir séu komnir í hár saman.

„Landið mitt er í miðju svæðisins sem þeir hafa skipulagt sem golfvöll. Ég var ekki á móti þessum framkvæmdum en þegar ég neitaði að selja landið mitt þá var mér hótað öllu illu. Mér var sagt að þeir myndu gera líf mitt erfiðara en það er í dag,“ segir Forbes við The Times.

Trump hefur svarað fyrir sig og segir hann landareign Forbes vera í niðurníðslu. „Það eru bara ryðgaðar dráttarvélar og ryðgaðar olíutunnur á þessu landi. Ég spurði Forbes að því hvort hann væri að láta mig líta illa út í augum fjölmiðla til þess að hann gæti farið fram á hærra verð fyrir landið,“ sagði Trump við The Times.

Svæðið sem um ræðir heitir Balmedie, og er það 20 km. fyrir norðan Aberdeen. Trump ætlar sér að búa til paradís fyrir kylfinga á þessu svæði en það er gert ráð fyrir 1,000 frístundahúsum auk þess sem 500 einbýlishús verða reist á svæðinu.

Á undanförnum 18 mánuðum hefur Trump boðið tvívegis í landareign Forbes. Fyrra tilboðið var upp á 43 milljónir kr. og það síðara var 3 milljónum kr. hærra. Forbes segir að hann ætli sér ekki að selja landið, hvað svo sem Trump komi til með bjóða í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert