Engar veimiltítur sem koma að austan

Ásta Birna Magnúsdóttir, til hægri, eftir sigur sinn á mótaröðinni …
Ásta Birna Magnúsdóttir, til hægri, eftir sigur sinn á mótaröðinni á dögunum. mbl.is/Valur

Ásta Birna Magnúsdóttir frá Djúpavogi hefur komið víða við í íþróttum með góðum árangri þrátt fyrir að vera einungis tvítug að aldri. Hún á að baki fínan árangur í hlaupagreinum, hástökki, langstökki, kúluvarpi og spjótkasti og nú er hún aldeilis að láta vita af sér í golfinu.

Þessi unga og fallega austfirska mær er sem stendur í öðru sætinu í kvennaflokki á Kaupþingsmótaröðinni í golfi en þar etja saman kappi allir helstu kylfingar landsins en fyrir ofan hana er ein helsta stjarnan í golfinu um langa hríð, Ragnhildur Sigurðardóttir.

Golf á Djúpavogi?

Þó á landinu sé nú að finna víða fína golfvelli verður seint sagt að Djúpivogur fari í bækur sem Mekka golfs á Fróni en þar kynntist Ásta íþróttinni gegnum frænda sinn Jón Rúnar Björnsson sem sjálfur er liðtækur spilari. „Margir halda að golfvöllurinn í bænum sé bara eitthvað slegið tún en svo er nú ekki og aðstaðan þar með ágætum þó ekki jafnist hún á við það sem best gerist. En þarna byrjaði ég átta ára gömul og fékk bakteríuna á svipstundu og hef verið í þessu síðan ásamt reyndar öðrum íþróttagreinum. Þar var ég svo að æfa mig fram til þess dags sem ég fór suður í menntaskóla og hef verið hjá Keili í Hafnarfirði síðan.“

Æfir fjóra til fimm tíma á dag

Þar æfir Ásta nú undir handleiðslu helstu kennara golfklúbbsins Keilis og ekki aðeins eyðir hún mörgum klukkustundum á dag við æfingar eða leik heldur starfar hún einnig í afgreiðslu golfklúbbsins. „Ég kann vel við mig í Hafnarfirðinum og starfið er mjög fínt og aldrei nein vandræði þó ég þurfi frá vegna móta eða slíks. Ég reyni að spila mikið á vellinum og æfa þá klukkustund að auki annaðhvort fyrir hring eða eftir en ef ég fer ekki hring á vellinum þá nota ég æfingaaðstöðuna hér og er þá þrjá til fjóra tíma í senn flesta daga. Það er sú fórn sem þarf að færa til að ná árangri.“

Leið á golfi

Ásta viðurkennir að hún fái nóg af golfi strax og vetur konungur fer að gera vart við sig í lok september og segir það hið besta mál. „Allavega meðan ég er í námi. Ég er að klára náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Kópavogi og ég hyggst halda áfram á menntabrautinni og þar heillar sjúkraþjálfun mig mest eins og sakir standa nú. En ég læt þó golfið ekki eiga sig lengi heldur fer að grípa í kylfur að nýju í desember og fer þá að æfa á ný tvisvar til þrisvar í viku og fjölga svo æfingum smátt og smátt fram að sumri.“

Rétt að byrja

Ásta, stolt af austfirskum uppruna sínum, segir engar veimiltítur koma að austan og árangur hennar nú sé aðeins byrjunin á því sem koma skal. „Ég hef tekið þátt og sigrað mót í unglingaflokkum og svo fyrir austan en sigurinn á þessu móti á Kaupþingsmótaröðinni er hápunkturinn hingað til. Ég segi hingað til þar sem ég ætla mér lengra og er aðeins í startholunum. En þar átti ég frábæran dag og allt gekk upp en ég auðvitað á mína slæmu daga líka eins og allir. Málið snýst um að fækka slæmu dögunum og þá er ekkert hægt annað en að fara hærra en nú er.“

Hola í höggi komin í hús

Þúsundir, ef ekki milljónir, áhugakylfinga dreymir um að fara holu-í-höggi á lífsleiðinni en Ásta kláraði það verkefni fyrir tvítugt á þriðju braut á Hvaleyrarvelli í fyrra en sú er par 4 og umkringd hrauni. „Það var þvílík hundaheppni og það var meira að segja fólk að pútta á flötinni þegar ég sló höggið. Svo sá ég fólkið veifa og öskra eitthvað og óttaðist að hafa slasað einhvern en sem betur fer var það bara að fagna högginu. Það var mjög ánægjulegt en hafði ekkert með sérstaka hæfileika að gera. Tóm heppni bara.“
Í hnotskurn
Ásta Birna er samanlagt í öðru sæti á Kaupþingsmótaröð kvenna með 271.50 stig að þremur mótum loknum. Á því fyrsta á Hellu varð Ásta í sjöunda sæti. Allt gekk upp á öðru mótinu í Leirunni á Suðurnesjum en þar sigraði hún með nokkrum yfirburðum. Á því þriðja dalaði árangurinn aðeins en þar varð Ásta ellefta.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert