„Þegar hann lak svo ofan í maður“

Kylfingurinn Heiðar Davíð Bragason gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 8. braut Garðavallar á Akranesi á lokadegi Íslandsmótsins í höggleik. Hann segir tilfinninguna hafa verið ansi ljúfa þegar hann sá boltann renna ofan í og að höggið hafi allt frá upphafi verið afar ljúft.

„Þetta var frekar ljúft. Ég tók 4-járnið, gripið aðeins niður, 177 metrar í pinna, lenti honum aðeins fyrir utan flötina og hann rúllaði inn og lak ofan í holu. Þetta var ótrúlega ljúft högg og góð sveifla. Það var ennþá betra. Ég er bara mjög sáttur,“ sagði Heiðar Davíð en hann lék á tveimur höggum undir pari í dag en var samtals á 9 höggum yfir pari.

Heiðar fór strax að hugsa um það hvort boltinn væri ekki bara hreinlega á leið ofan í holuna.

„Maður fór að hugsa það þegar maður sá flugið. Maður sá að hann var að beygja aðeins inn,“ sagði Heiðar Davíð og hugsaði svo með sjálflum sér „Þetta lítur vel út.“ 

„Svo lendir hann og byrjar að rúlla og maður sér að hann stefnir á pinnan. Þetta var ótrúlega ljúft þegar hann lak svo ofan í maður, alveg glæsilegt,“ sagði Heiðar Davíð.

Nánar var rætt við  Heiðar Davíð í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert