Blindfullur og datt á hausinn

Robert Allenby á golfmótinu á Hawaii í janúar.
Robert Allenby á golfmótinu á Hawaii í janúar. AFP

Fyrrum kylfusveinn ástralska kylfingsins Roberts Allenbys segist ekki telja að Allenby hafi orðið fyrir líkamsárás og honum byrluð ólyfjan á Hawaii eins og Allenby hélt fram opinberlega í janúar.

Allenby rakk Mick Middlemo úr starfi í miðjum golfhring á Opna Kanadíska-mótinu á dögunum. Middlemo hefur nú launað Allenby niðurlæginguna með því að fara í viðtal við fjölmiðil í Ástralíu og segja sína skoðun á atvikinu á Hawaii sem varð mikið fjölmiðlamál á sínum tíma.

Middlemo var þá starfandi kylfusveinn Allenbys en var ekki með honum umrætt kvöld þegar Allenby fór út að skemmta sér. Allenby var með mikla áverka í andliti eftir kvöldið og fullyrti opinberlega að sér hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað, honum hafi verið rænt, hann rændur, laminn og  skilinn eftir skammt frá skemmtistaðnum.

„Ég held að hann hafi einfaldlega dottið á hausinn eftir að hafa innbyrt mikið magn af víni og tekíla á fastandi maga,“ sagði Middlemo en á sínum tíma studdi hann frásögn Allenbys opinberlega.

„Ef þú spyrð mig hvort ég trúi því að honum hafi verið rænt og hann beittur ofbeldi þá tel ég svo ekki vera. Ég tók hins vegar undir þá sögu á sínum tíma vegna þess að hann sagði mér að gera það,“ sagði Middlemo ennfremur. 

Frétt mbl.is af málinu fyrr á þessu ári:

Miklir áverkar á Allenby

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert