Andri Þór og Þórdís unnu á fyrsta móti ársins

Andri Þór Björnsson vann Egils Gull-mótið.
Andri Þór Björnsson vann Egils Gull-mótið. Eggert Jóhannesson

Egils Gull-mótið í golfi kláraðist í dag en Andri Þór Björnsson, kylfingur úr GR, og Þórdís Geirsdóttir úr GK sigruðu í karla- og kvennaflokki. Andri vann með yfirburðum á meðan Þórdís vann eftir bráðabana.

Þetta mót var fyrsta mótið í Eimskipamótaröðinni en Andri vann það með þó nokkrum yfirburðum en hann var með sex högg á næsta mann. Hann var með 205 högg í heildina en Ragnar Már Garðarsson úr GKG kom næstur með 211 högg. Arnór Snær Guðmundsson úr GHD var svo í þriðja sæti með 211 högg, eða jafnmörg og Ragnar.

Andri spilaði stöðugt golf alla þrjá hringina og virtist sigurinn aldrei í hættu en eftir fyrsta hringinn voru hann og hinn 15 ára gamli Daníel Ísak Steinarsson jafnir. Andri tók þó forystu á öðrum hring og þá var ekki aftur snúið.

Þórdís Geirsdóttir vann svo Egils Gull-mótið í kvennaflokki eftir bráðabana. Þegar allir þrír hringirnir voru búnir voru hún og Karen Guðnadóttir með átján högg yfir pari og var því leikið í bráðabana á 10. holu.

Þórdís tryggði sér sigur þar með því að fá fugl og því sigur á fyrsta móti hjá henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert