Andri í forystu - Berglind og Guðrún jafnar

Berglind Björnsdóttir.
Berglind Björnsdóttir. Styrmir Kári

Andri Þór Björnsson úr GR leiðir lestina í karlaflokki eftir fyrsta dag Símamótsins í Eimskipamótaröðinni í golfi. Berglind Björnsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir eru jafnar í fyrsta sæti í kvennaflokki en leikið var á Hlíðavelli.

Eins og fram kom fyrr í dag setti Andri Þór nýtt vallarmet á Hlíðavelli þegar hann lék á 8 höggum undir pari í dag. Magnús Lárusson og Gísli Sveinbergsson eru þó stutt á eftir honum en þeir léku á 6 höggum undir pari sem jafnar gamla vallarmetið á Hlíðavelli. Í fjórða sæti er Alfreð Brynjar Kristinsson á 4 höggum undir pari. 

Í kvennaflokki léku þær Berglind Björnsdóttir og Guðrún Brá Björgvins á 1 höggi yfir pari, tveimur höggum á undan Særósu Evu Óskarsdóttur sem lék á 3 höggum yfir pari.

Símamótið er annað mótið í Eimskipamótaröðinni, á eftir Egils Gull-mótinu. Andri vann öruggan sigur í karlaflokki á Egils Gull-mótinu en Þórdís Geirsdóttir var sigurvegari í kvennaflokki eftir bráðabana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert