GSÍ ræður finnskan afreksstjóra

Jussi Pitkanen, nýr afreksstjóri Golfsambands Íslands.
Jussi Pitkanen, nýr afreksstjóri Golfsambands Íslands.

Jussi Pitkanen, 39 ára gamall Finni, hefur verið ráðinn afreksstjóri Golfsambands Íslands frá og með næstu áramótum. Hann tekur við af Úlfari Jónssyni sem hefur verið landsliðsþjálfari GSÍ undanfarin ár.

Pitkanen hefur verið búsettur á Írlandi um árabil og starfað þar. „Við búum rétt við Dublin á Írlandi. Á undanförnum þremur árum hef ég starfað hjá samtökum PGA á Bretlandi og Írlandi. Þar ég hef stýrt kennslu PGA þjálfara/kennara samhliða endurmenntunar – og þróunarstarfi,“ segir Jussi Pitkanen við golf.is en hann starfaði í mörg ár hjá einum virtasta golfsérfræðingi veraldar, Dave Pelz.

„Ég var einn af kennurunum hjá Dave Pelz, sem hefur sérhæft sig í þekkingu og kennslu á stutta spilinu. Við komum að þjálfun hjá kylfingum á öllum stigum atvinnumennskunnar, þar má nefna leikmenn á Evrópumótaröðinni, LET Evrópumótaröð kvenna, Áskorendamótaröðinni, bestu áhugakylfingum heims. Í raun voru kylfingar á öllum getustigum að koma til okkar í þjálfun í stutta spilinu.“

Jussi reyndi fyrir sér sem atvinnukylfingur og sú reynsla leiddi hann áfram í meistaranám í íþróttaþjálfun við háskólann í Birmingham. „Í meistaranáminu mínu rannsakaði ég m.a. hvernig afrekskylfingum gengur að stíga skrefið úr áhugamennsku í atvinnumennsku," segir Pitkanen við golf.is.

Jussi Pitkanen á Augusta National.
Jussi Pitkanen á Augusta National.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert