Ólafía bráðum í Paradís

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mætir bráðum til leiks á LPGA-mót, fyrst …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mætir bráðum til leiks á LPGA-mót, fyrst íslenskra kvenna. Ljósmynd/Tristan Jones

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnumaður í golfi, hefur æft af krafti í Bandaríkjunum undanfarna daga fyrir frumraun sína á LPGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims.

Ólafía vann sér sæti á mótaröðinni með eftirminnilegum hætti á síðasta ári, þegar hún varð í 2. sæti á lokaúrtökumótinu. Hún varð þar með fyrst íslenskra kylfinga til að komast á mótaröðina.

Fyrsta mót Ólafíu fer fram á Paradísareyju, einni af Bahama-eyjum, dagana 26.-29. janúar. Þetta er jafnframt fyrsta LPGA-mót tímabilsins. Mótið heitir Pure Silke Bahamas og fer fram á Ocean Club-vellinum, sem er rétt rúmlega 6.000 metra langur par 73 völlur.

Heildarverðlaunaféð á mótinu er 160 milljónir króna en sigurvegari mótsins í fyrra, Hyo Joo Kim frá Suður-Kóreu, fékk jafnvirði 24 milljóna króna í sinn hlut.

Ólafía heldur frá Bandaríkjunum til Bahamaeyja næsta sunnudag, að því er fram kemur á vef Golfsambandsins. Þar segir enn fremur að hún sé á góðum batavegi eftir viðamikla kjálkaaðgerð sem hún fór í um miðjan desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert