Valdís Þóra lék undir pari

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/LET/Tristan Jones

Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir, úr Leyni á Akranesi, fór vel af stað á sínum fyrsta hring á Evrópumótaröðinni, LET, í Ástralíu í kvöld. 

Valdís lék á 71 höggi eða á tveimur undir pari vallarins. Valdís virðist hafa ráðið vel við spennuna sem væntanlega hefur fylgt fyrsta hringnum á mótaröðinni því hún lék fyrri níu holurnar á tveimur undir pari. Valdís fékk einungis einn skolla á hringnum en þrjá fugla og fjórtán pör. 

Flott byrjun hjá Valdísi sem er jöfn fleiri kylfingum í 20. sæti sem stendur en Valdís var á meðal þeirra fyrstu sem ræstar voru út og því á staðan eftir að breytast.

Mótið er það fyrsta hjá Valdísi á þessari sterkustu mótaröð Evrópu en hún tryggði sér keppnisrétt í úrtökumótunum í lok síðasta árs. 

Leikið er í Ástralíu á tveimur völlum, Beach og Creek en samtals verða leiknir fjórir hringir. Valdís átti rástíma kl. 7 að morgni dags í Ástralíu, sem er kl. 20 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert