Valdís lék á einu yfir pari

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/LET/Tristan Jones

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur úr Leyni er væntanlega úr leik á Oates Vic Open-mótinu í Evrópumótaröðinni sem nú stendur yfir í Victoria-fylki í Ástralíu eftir að hún lék þriðja hringinn á einu höggi yfir pari vallarins en hún lauk keppni rétt í þessu.

Valdís er sem stendur í 52. til 53. sæti af þeim 65 kylfingum sem komust í gegnum niðurskurðinn eftir annan hring en þarf að vera í hópi 35 efstu til að fá að spila lokahringinn á mótinu. Margir kylfingar eiga eftir að ljúka þriðja hringnum en afar ólíklegt er að Valdís komist áfram.

Hún er samtals á einu höggi undir pari eftir þrjá hringi, eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á tveimur höggum undir og annan hringinn á pari.

Valdís fékk tvo fugla í dag en hins vegar þrjá skolla og lék hinar holurnar á pari.

Þar sem hún komst áfram eftir tvo fyrstu hringina fær hún bæði verðlaunafé og stig í LET-Evrópumótaröðinni fyrir frammistöðu sína en þetta er fyrsta mót ársins í mótaröðinni. Valdís vann sér sæti í henni í fyrsta skipti með frammistöðu sinni á úrtökumótum fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert