Luke Donald minnir á sig

Luke Donald á Hilton Head í gær.
Luke Donald á Hilton Head í gær. AFP

Enski kylfingurinn Luke Donald er ekki af baki dottinn þrátt fyrir mótlæti á golfvellinum síðustu árin. Hann er í baráttu um sigur á RBC Heritage-mótinu á PGA-mótaröðinni að loknum 36 holum. 

Donald hefur leikið fyrstu tvo hringina á 65 og 67 höggum eða samtals á tíu undir pari Hilton Head vallarins. Graham DeLaet frá Kanada hefur leikið á sama skori og Donald og eru þeir efstir. 

Annar kunnur Englendingur, Ian Poulter, kemur næstur á átta undir pari eins og Bandaríkjamaðurinn Webb Simpson. 

Donald er nú í 136. sæti peningalistans á mótaröðinni en hann komst í efsta sæti heimslistans árið 2011 og náði þá þeim sjaldgæfa árangri að verða efstur á peningalista bæði PGA-mótaraðarinnar og Evrópumótaraðarinnar. Þeirri velgengni hefur Donald reynst erfitt að fylgja eftir og hefur hann til að mynda ekki unnið mót á PGA síðan 2012 og aldrei unnið risamót á ferlinum. Donald er 39 ára gamall og hans besti árangur á PGA hingað til á árinu er 17. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert