Valdís grátlega nærri US Open

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósmynd/LET

Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Leyni, komst í bráðabana á móti þar sem keppt var um sæti á einu risamótanna fimm í golfi, US Open, í dag.

Úrtökumótið fór fram í Buckinghamshire á Englandi og voru fjögur sæti í boði á US Open. Caroline Hedwall og Carly Booth náðu tveimur efstu sætunum og tryggðu sér þannig þátttökuréttinn, en Valdís, Kelsey MacDonald og Meghan MacLaren þurftu að fara í bráðabana um tvö laus sæti. Þær höfðu leikið hringina tvo samtals á 1 höggi yfir pari.

Í bráðabananum fékk Valdís skolla á fyrstu holu en hinar tvær par, og þar með varð ljóst að MacDonald og MacLaren færu á US Open.

Samkvæmt frétt Golfsambandsins er ekki öll von úti hjá Valdísi Þóru því hún er fyrsti varamaður inn á US Open, sem fram fer í New Jersey 13.-16. júlí. Í fyrra komst fyrsti varamaður inn, svo dæmi sé tekið.

Valdís fór á mótið í Englandi strax eftir að hafa náð 22. sæti á móti á LET Access mótaröðinni um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert